Segist dæma eftir laganna bókstaf

ERLENT  | 13. október | 8:03 
Amy Coney Barrett, sem tilnefnd hefur verið til embættis dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, segir það mikinn heiður að hafa hlotið tilnefningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Barett flutti í kvöld framsögu sína fyrir réttarfarsnefnd Bandaríkjaþings.

Amy Coney Barrett, sem tilnefnd hefur verið til embættis dómara við Hæstarétt Bandaríkjanna, segir það mikinn heiður að hafa hlotið tilnefningu Donalds Trump Bandaríkjaforseta. Barett flutti í kvöld framsögu sína fyrir réttarfarsnefnd Bandaríkjaþings. 

Í framsögu sinni hét Barrett, sem er 48 ára, því að dæma í málum á óhlutdrægan hátt. Tilnefningin er gríðarlega umdeild í Bandaríkjunum, annars vegar vegna þess hve stutt er í forsetakosningar vestanhafs og hins vegar vegna íhaldssamra skoðana Barrett. 

Frétt af mbl.is

Verði tilnefning Barrett samþykkt verða íhaldssamir dómarar við Hæstaréttinn sex en frjálslyndir dómarar þrír eftir andlát Ruth Bader Ginsburg í september. 

„Ég hef verið tilnefnd til þess að taka við sæti Ginsburg, en það mun aldrei neinn koma í staðinn fyrir hana. Ég mun alltaf vera þakklát fyrir þá braut sem hún ruddi og lífið sem hún lifði,“ sagði Barrett í upphafi framsögu sinnar í kvöld. 

„Líf þjónustu, gilda, trúar og ástar“

Viðbúið er að tilnefningarferli Barrett fyrir réttarfarsnefndinni eigi eftir að taka einhverja daga líkt og raunin var þegar Brett Kavanaugh var skipaður í embætti hæstaréttardómara haustið 2018. Repúblíkanar, sem eru í litlum meirihluta í þinginu, vilja að tilnefningin verði samþykkt fyrir forsetakosningarnar 3. nóvember. 

Í framsögu sinni í kvöld þakkaði Barrett Bandaríkjaforseta fyrir traustið sem henni hefur verið sýnt með tilnefningunni. Hún talaði um mikilvægi fjölskyldu sinnar og hvernig foreldar hennar hafa búið hana undir „líf þjónustu, gilda, trúar og ástar.“ Hún þakkaði einnig þeim dómurum sem hún hefur starfað með áður, meðal annars Antonin Scalia heitnum sem hún sagði hafa „mótað“ sig. 

Þá sagði Barrett það vera hlutverk stjórnmálamanna en ekki dómara að sinna stefnumótum og treysta ákveðin gildi í sessi. 

„Í hverju máli hef ég vandlega íhugað röksemdir beggja aðila, rætt málsatvik við samstarfsmenn mína og gert með allra besta til að komast að niðurstöðu á grundvelli laganna, sama hvaða persónulegu skoðanir ég kann að hafa,“ sagði Barrett. 

Þættir