Hjarðónæmi ólíklegt í ár

TÆKNI  | 12. janúar | 6:15 
Vísindamenn hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) segja ólíklegt að hjarðónæmi við kórónuveirunni myndist í ár og breytir þar engu að einn helsti framleiðandi bóluefnis hafi boðað stóraukna framleiðsluspá.

Vísindamenn hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) segja ólíklegt að hjarðónæmi við kórónuveirunni myndist í ár og breytir þar engu að einn helsti framleiðandi bóluefnis hafi boðað stóraukna framleiðsluspá.

Smitum fjölgar hratt í heiminum, einkum í Evrópu, þar sem þjóðir hafa þurft að herða sóttvarnareglur þrátt fyrir að bólusetningar séu hafnar.

Yfirmaður vísindamála WHO, Soumya Swaminathan, varaði við því í gær að það tæki tíma að framleiða og bólusetja svo marga að það hefti útbreiðslu veirunnar sem hefur sýkt yfir 90 milljónir jarðarbúa og kostað tæplega tvær milljónir manna lífið. 

Hún segir að ekki sé möguleiki á að ná hjarðónæmi í ár og mikilvægt sé að virða fjarlægðarmörk, þvo hendur og nota grímur áfram.

Sérfræðingar eru einnig áhyggjufullir vegna hraðrar útbreiðslu nýs afbrigðis veirunnar sem fyrst greindist í Bretlandi. Margt bendir til þess að það afbrigði sé mun meira smitandi en fyrri afbrigði. 

Englendingar opnuðu fyrstu fjöldabólusetningarstöðvarnar í gær en þar er ástandið á sjúkrahúsum grafalvarlegt vegna fjölda Covid-19-sjúklinga. 

Yfirmaður heilbrigðismála á Englandi, Chris Whitty, segir í samtali við BBC að næstu vikur verði þær erfiðustu fyrir landið frá því faraldurinn hófst vegna fjölda innlagna á sjúkrahús. 

Í Portúgal er verið að undirbúa nýjar lokunaraðgerðir vegna fjölgunar smita og dauðsfalla en forseti landsins, Marcelo Rebelo de Sousa, er meðal þeirra sem hefur smitast. 

Í Slóvakíu er verið að undirbúa átak í skimunum að sögn forsætisráðherra landsins, Igor Matovic, en þar var gert átak í skimunum í nóvember. Hann segir það einu leiðina til að halda utan um stöðu mála. 

Þýska líftæknifyrirtækið BioNTech, sem stendur á bak við fyrsta bóluefnið sem var samþykkt á Vesturlöndum ásamt Pfizer, hefur greint frá því að það geti framleitt milljón fleiri skammta í ár en áður var talið og hefur aukið framleiðsluspá sína úr 1,3 milljörðum skammta í tvo milljarða.

Yfirvöld í Rússlandi ætla að hefja tilraunir á að framleiða nýja útfærslu af rússneska bóluefninu Spútnik V þar sem aðeins þarf að bólusetja einu sinni í stað tvisvar í þeirri von að það geti komið þeim ríkjum sem hafa orðið verst úti til hjálpar.  

Á Indlandi verður byrjað að bólusetja á laugardag en alls eru íbúar landsins 1,3 milljarðar talsins. Það er eitt þeirra landa sem hefur farið illa út úr faraldrinum og það land sem skipar annað sætið á eftir Bandaríkjunum hvað varðar fjölda smita. 

Smitum hefur einnig fjölgað víða í Asíu og hefur konungur Malasíu lýst yfir neyðarástandi í landinu. Þar eru sjúkrahús yfirfull og mikill fjöldi smita. Síðast var lýst yfir neyðarástandi í öllu landinu árið 1969 og þá var það vegna mannskæðra óeirða.

 

Þættir