„Bóluefni, bóluefni, bóluefni.“

FÓLKIÐ  | 4. mars | 7:22 
Tónlistarkonan Dolly Parton hefur verið bólusett við Covid-19 og hvetur aðra til þess að þiggja bóluefnið.

Tónlistarkonan Dolly Parton hefur verið bólusett við Covid-19 og hvetur aðra til þess að þiggja bóluefnið. Parton, sem er 75 ára gömul, söng breytta útgáfu af einu þekktasta lagi sínu, Jolene, áður en hún var sprautuð með bóluefninu á Vanderbilt-háskólasjúkrahúsinu í Nashville í Tennessee í gær. 

„Bóluefni, bóluefni, bóluefni, bóluefni, ég bið þig, ekki hika,“ söng Parton skömmu áður en hún fékk fyrri skammtinn af Moderna-bóluefninu í gær.  

 

 

 

Parton er ein þeirra sem lagði sitt af mörkum við þróun Moderna-bóluefnisins en hún gaf 1 milljón bandaríkjadala, rúmar 126 milljónir króna til Vanderbilt-háskólasjúkrahússins en hluti fjárins rann til rannsókna á Moderna-bóluefninu á frumstigi rannsóknanna. Bóluefnið reyndist síðar veita 95% vörn við alvarlegum veikindum vegna Covid-19.

Dolly Parton segist hafa beðið eftir bólusetningunni í talsverðan tíma. „Ég er nógu gömul til þess að fá það og ég er nógu klár til þess að þiggja það,“ segir hún í myndskeiði sem Vanderbilt-háskólinn hefur birt. 

Í síðasta mánuði sagði Parton í viðtali við AP-fréttastofuna að hún vildi bíða með bólusetningu þangað til meira magn af bóluefninu væri í boði. „Ég vil ekki að það sé eins og ég sé að troða mér fram fyrir aðra í röðinni.“ Nú er aftur á móti meira magn í boði – að minnsta kosti í Bandaríkjunum – og söngkonan segist vilja hvetja alla til að þiggja bólusetningu þegar þeim stendur hún til boða. 

Frétt BBC

Þættir