Icelandair verði áfram íslenskt

VIÐSKIPTI  | 10. mars | 15:34 
Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir ekki koma til greina að flytja hluta af starfsemi félagsins úr landi til þess að lækka kostnað þess. Hann segir að félagið sé lífvænlegt við núverandi fyrirkomulag þar sem stuðst er við íslenska kjarasamninga.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir ekki koma til greina að flytja hluta af starfsemi félagsins úr landi til þess að lækka kostnað þess. Hann segir að félagið sé lífvænlegt við núverandi fyrirkomulag þar sem stuðst er við íslenska kjarasamninga, jafnvel þótt félagið eigi í höggi við flugfélög í Evrópu og Bandaríkjunum sem búi við aðrar aðstæður þegar kemur að rekstrarkostnaði.

„Ég er alveg sannfærður um það. Þetta viðskiptamódel Icelandair hefur sýnt sig í gegnum tíðina að hefur gengið mjög vel og ef við erum að tala um Icelandair sem íslenskt félag þá þurfum við bara að horfast í augu við að það er íslenskt félag sem er með íslenskan kostnað og laun eru að sjálfsögðu stór hluti af því. Ef það er verið að tala um eitthvað annað þá finnst mér að menn eigi bara að segja það heiðarlega. EF menn vilja fara með Icelandair eitthvað annað en að vera á Íslandi og vera með einhvern annan kostnað en við erum með hér þá eiga menn bara að stíga fram og segja að það sé það sem þeir séu að ræða um. Við trúum því að Icelandair eigi að vera á Íslandi.“

Staðsetningin veitir forskot

Úlfar segir að staðsetning landsins og starfsemin á Keflavík gefi Icelandair forskot í samkeppni við mörg önnur flugfélög.

„[…] Við erum með þennan tengiflugvöll sem mjög margir af þessum stærri aðilum munu aldrei keppa á því eftirspurnin á þessum leiðum er ekki nógu mikil. Þannig að Icelandair er alveg í kjörstöðu hvað þetta varðar.“

Hann segir að vissulega sé keppnin mjög hörð á milli staða eins og Kaupmannahafnar og Boston eða New York og London.

„En það er í raun bara viðbót við það sem við erum að gera og fyrir vikið getum við verið með gríðarlega öfluga sókn á mjög marga staði sem ég hef ekki trú á að margir myndu sækja á því að kostnaðurinn fyrir þá yrði bara miklu meiri fyrir þá en okkur.“

Nýir samningar skipta sköpum

Hann segir sömuleiðis að vel hafi tekist til þegar endursamið var við flugstéttir félagsins síðastliðið sumar.

„Ég held að það hafi tekist alveg ótrúlega vel til í þessum samningum þótt svo að menn hafi deilt dálítið grimmt og það hafi komið upp atvik þess eðlis að hugsanlega séu einhverjir ekki sáttir enn þá. En það sem tókst núna er nokkuð sem búið er að tala um í tugi ára að þyrfti að gera. Það er að ná betri nýtingu á áhafnir […].“

Segir Úlfar að það hafi verið mjög góð tilfinning í raun að sjá hversu mikið starfsfólk félagsins hafi verið tilbúið til að leggja á sig fyrir það og hversu mjög það hafi staðið með félaginu á erfiðum tímum.

Úlfar er gestur Stefáns Einars Stefánssonar í Dagmálum.

Þátturinn er opinn öll­um áskrif­end­um Morg­un­blaðsins og má nálg­ast þá á mbl.is.

Hægt er að horfa á þátt­inn í heild sinni hér.

Þættir