Brjóstagjöf undir þrumuræðum þjálfarans

ÍÞRÓTTIR  | 23. mars | 9:13 
„Það var alltaf æðisleg tilfinning að fá börnin sín í hendurnar eftir leiki,“ sagði Ágústa Edda Björnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og núverandi Íslandsmeistari í hjólreiðum, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

„Það var alltaf æðisleg tilfinning að fá börnin sín í hendurnar eftir leiki,“ sagði Ágústa Edda Björnsdóttir, fyrrverandi landsliðskona í handknattleik og núverandi Íslandsmeistari í hjólreiðum, í Dagmálum, nýjum frétta- og menningarlífsþætti Morgunblaðsins.

Ágústa varð þrívegis Íslandsmeistari með Val, 2010, 2011 og 2012, og þá varð hún bikarmeistari með liðinu 2012 ásamt því að leika 62 landsleiki og skora í þeim 102 mörk.

Árið 2015 lagði hún handboltaskóna á hilluna en ári síðar tók hún þá ákvörðun að gerast afreksíþróttakona í hjólreiðum. Hún hefur orðið Íslandsmeistari í götuhjólreiðum þrjú ár í röð og þá er hún þrefaldur Íslandsmeistari í tímatöku líka.

„Stundum fékk maður börnin meira að segja í hendurnar í hálfleik þar sem maður þurfti að gefa brjóst,“ sagði Ágústa sem er þriggja barna móðir í dag.

„Þegar ég hugsa til baka þá var það frekar fyndið að fá barnið í hendurnar, setjast niður inni í klefa og gefa brjóst, á meðan þjálfarinn hélt þrumuræðu yfir liðinu,“ sagði Ágústa meðal annars.

Viðtalið við Ágústu Eddu í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir