Óraunveruleg frumsýning í Las Vegas

FÓLKIÐ  | 14. júní | 13:38 
Eftir útskrift úr leiklistarnámi í New York hélt söng- og leikkonan Unnur Eggertsdóttir til Las Vegas þar sem hún tók þátt í stórri uppsetningu sem byggðist á lífi Marilyn Monroe. Unnur dvaldi þar í sex mánuði og voru sýningar sex sinnum í viku. Í Dagmálum segir hún Dóru Júlíu frá ferlinu.

Í Dagmálum dagsins ræðir Dóra Júlía við Unni Eggertsdóttur en þættirnir eru aðgengilegir áskrifendum Morgunblaðsins hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.

Unnur Eggertsdóttir útskrifaðist með glæsibrag úr virtum leiklistarskóla í New York fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið fór hún í prufur fyrir söngleikinn Marilyn! þar sem hún landaði stóru hlutverki. Lífið þróaðist ansi hratt þar sem leikritið var sýnt í stóru leikhúsi í Las Vegas. Unnur var búsett þar í sex mánuði og voru sýningar sex sinnum í viku. Aðspurð hvort það hafi ekki verið óraunverulegt stundum að átta sig á því að hún væri með risastórt hlutverk í stórri framleiðslu segist hún ekki hafa fengið „reality check moment“ fyrr en á frumsýningunni.

Sex sýningar í viku

„Ferlið fyrir sýninguna var búið að vera ótrúlega skemmtilegt. Á frumsýningunni í Las Vegas man ég svo að tónlistarstjóri sýningarinnar kom til mín og spurði mig hvort ég áttaði mig á því að ég sendi honum söngmyndband af mér þegar ég var að útskrifast úr skólanum í New York og nú væri ég að frumsýna í risaleikhúsi í Las Vegas, með mitt eigið „showstopper“-atriði að fara að sýna sex sinnum í viku,“ segir Unnur.

Hún segir mikilvægt að staldra við og átta sig á aðstæðum en segir enn fremur mikilvægt að minna sig á þetta þegar maður á slæma daga. Lífið er alls konar; stundum er mikið að gera en aðrir dagar eru rólegri. „Það er mikilvægt að minna sig á að þótt ég sé ekki að leika í einhverju svona akkúrat núna þá veit ég að þessi tækifæri eru til.“

Þættir