Ætlaði alltaf að vinna í fjölmiðlum

FÓLKIÐ  | 5. júlí | 13:15 
Sigurður Þorri Gunnarsson hefur haft ástríðu fyrir fjölmiðlum frá því að hann man eftir sér. Í æsku bjó hann nálægt útvarpsmanninum Gesti Einari sem var með útvarpsþáttinn Hvítir mávar á Rás 2. Ungur að aldri fékk hann að fara með Gesti í stúdíóið að fylgjast með tökum og eftir það var ekki aftur snúið.

Sigurður Þorri Gunnarsson, betur þekktur sem Siggi Gunnars á K100, hefur haft ástríðu fyrir fjölmiðlum frá því að hann man eftir sér. Á æskuárum sínum bjó Siggi nálægt útvarpsmanninum Gesti Einari sem var með útvarpsþáttinn Hvítir mávar á Rás 2. Þegar Siggi var 5 eða 6 ára gamall fékk hann að fara með Gesti í stúdíóið að fylgjast með tökum.

 „Þegar ég fylgdist með honum þá gerðist eitthvað. Síðan þá hef ég ekki litið tilbaka, ég hef algjörlega verið háður fjölmiðlum síðan þá,” segir Siggi og segir meðal annars frá því að hann hafi stundum klætt sig upp sem Bogi Ágústsson fréttamaður og mæmað fréttatímann á meðan Bogi las fréttirnar.

Siggi er gest­ur Dóru Júlíu í Dag­mál­um, streym­isþátt­um Morg­un­blaðsins sem eru opn­ir áskrif­end­um. Viðtalið er að finna hér en einnig er hægt að kaupa vikupassa hér.

Siggi segist hafa verið óvenjulegt barn þar sem hann var með heimatilbúið fréttasett í barnaherbergi sínu. Stundum fylgdist fjölskylda hans með honum flytja fréttir en stundum var hann bara einn með sjálfum sér í fjölmiðlaleikjum. Bróðir Sigga er handlaginn og hjálpaði honum að breyta barnaherberginu í útvarps- og sjónvarpsstúdíó, með myndavélum úr Frissa fríska-fernum og klósettrúllum. Því má segja að það sé engin tilviljun að Siggi Gunnars vinni sem útvarps- og tónlistarstjóri á einni stærstu útvarpsstöð landsins, þar sem markmiðið var alltaf skýrt. „Fjölmiðlar hafa alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú og ég ætlaði bara alltaf að fara í fjölmiðla.”

Þættir