Feimnin átti ekki séns

FÓLKIÐ  | 15. júlí | 13:20 
Guðrún Ýr Eyfjörð, bet­ur þekkt sem GDRN, skaust upp á stjörnu­him­in­inn árið 2018 eft­ir að hún gaf út sóló­plöt­una Hvað ef. Hún hef­ur unnið hug og hjörtu lands­manna með sinni seiðandi röddu og stór­kost­legu hæfi­leik­um. Ný­lega sló hún í gegn í Net­flix-serí­unni Kötlu þar sem hún fór með hlut­verk Grímu, aðal­per­sónu þátt­anna.

Guðrúnu Ýri Eyfjörð, betur þekkt sem GDRN, skaut upp á stjörnuhimininn árið 2018 eftir að hún gaf út sólóplötuna Hvað ef. Hún hefur unnið hug og hjarta landsmanna með sinni seiðandi röddu og stórkostlegu hæfileikum. Nýlega sló hún í gegn í Netflix-seríunni Kötlu þar sem hún fór með hlutverk Grímu, aðalpersónu þáttanna. 

Guðrún segist hafa verið ótrúlega feimin í gegnum tíðina og ekki byrjað að syngja fyrr en hún kom í menntaskóla. Ásamt því að vera söngkona og leikkona er hún öflugur hljóðfæraleikari, laga- og textahöfundur og hefur gaman af því að lesa bækur, hlusta á fjölbreytta tónlist og njóta þess að vera til. Hún segir mikilvægt að standa með sjálfri sér og fylgja sínu og heldur ótrauð áfram að skapa og semja út frá sjálfri sér.

„Þetta var alveg vandamál,“ segir Guðrún Ýr og fer yfir það hvernig hún var á sínum yngri árum. „Ég var svo feimin að þegar ég hélt tónleika lét ég mig hverfa úr sviðsljósinu yfir í myrkrið þannig að enginn sá mig, þetta var alveg vonlaust sko,“ bætir hún við hlæjandi.

Út frá tengslum sínum við aðra tónlistarmenn segir hún að margir upplifi stress við að fara upp á svið að syngja.

„Ég held að flestir tónlistarmenn tengi við það þegar þú ert uppi á sviði og ert að syngja, þetta er náttúrlega ógeðslega erfitt,“ og segir hún fiðrildi í maganum alltaf koma áður en hún fer upp á svið. „Maður er búinn að tala við kempur í bransanum sem eru kannski búnar að vera í 50 ár og þær eru bara: „Jájá, maður verður alltaf stressaður!““

En skjótt skipast veður í lofti og segir hún stressið oftast hverfa við það að byrja að syngja.

„Svo kemur maður og nær einhvern veginn að komast á einhverja tíðni og einhverja tilfinningu. Manni líður eins og maður sé að segja einhverja sögu og það eru allir að hlusta og þetta verður eitthvað svo ... það er ekki hægt að lýsa þessu. Maður fær einhverja alveg klikkaða tilfinningu alveg ofan í maga sem gefur manni svo mikið og drífur mann svo mikið áfram í þessum tónlistarflutningi. Þannig að ég fann það rosa fljótt að þetta var eitthvað sem gaf mér svo mikið að feimnin eiginlega átti ekki séns í þá tilfinningu hvað mér fannst þetta gaman og hvað það er mikil ástríða í þessu.“

Viðtalið við Guðrúnu Ýr í heild sinni má nálgast með því að smella hér.

Þættir