„Ótrúlega gott að búa á Íslandi“

INNLENT  | 25. október | 13:26 
Sólveig Dóra hefur vakið athygli um allan heim fyrir útskriftarlínu sína úr einum virtasta hönnunarskóla heims.

„Það er enginn tískuiðnaður á Íslandi. Við erum alveg með einhver fatamerki sem við erum að framleiða. Það eru nokkur þannig. En þessi iðnaður, sem svo ótrúlega margir vinna í og þrífast á – það er ekki hér svo þetta var ótrúlega áhugavert,“ segir Sólveig Dóra fatahönnuður um líf sitt og starf í London, í Dagmálum, frétta- og menn­ing­ar­lífsþætti Morg­un­blaðsins.

Hún er nýútskrifuð úr meistaranámi í einum virtasta hönnunarskóla heims, Central Saint Martins í London, og hefur útskriftarlína hennar úr skólanum hlotið verðskuldaða athygli um allan heim en Sólveig fékk aðalverðlaun útskriftarnema í skólanum fyrir línuna. Föt eftir Sólveigu Dóru voru valin meðal annars á Vogue Runway-tískusýninguna.

Vegna kórónuveirufaraldursins vann Sólveig Dóra að línunni aðallega hér á landi en hún kveðst þakklát fyrir þann tíma og reynslu sem hún fékk í London bæði þegar hún var við nám í skólanum og í starfsnáminu áður en hún komst inn í skólann. 

„Mér fannst ég mjög lítil“

„Mér fannst ég klárlega þurfa að fara þangað til að fatta hvað þetta er einhvern veginn risakerfi. Mér fannst ég mjög lítil,“ segir Sólveig Dóra sem segir það hafa verið yfirþyrmandi að búa og starfa í stórborg eins og London og segist hafa uppgötvað hversu gott það er að búa á Íslandi eftir dvöl sína í London. 

„En mikið af tækifærum úti, stórum tækifærum,“ bendir Sólveig Dóra á. 

Sjáðu þáttinn í heild sinni hér.

Þættir