Greindist með heilaæxli á aðfangadag

SMARTLAND  | 25. október | 15:20 
Veitingamaðurinn Óskar Finnsson greindist með krabbamein í heila á lokastigi á aðfangadag árið 2019. Æxlið greindist eftir að hann hafði fundið fyrir gríðarlega miklum höfuðverk daginn og kvöldið áður.

Veitingamaðurinn Óskar Finnsson greindist með krabbamein í heila á lokastigi á aðfangadag árið 2019. Æxlið greindist eftir að hann hafði fundið fyrir gríðarlega miklum höfuðverk daginn og kvöldið áður. 

Óskar var gestur þeirra Helga Jean Claessen og Hjálmars Arnar Jóhanssonar í hlaðvarpinu Hæ Hæ - Ævintýri Helga og Hjálmars. Í þættinum ræða þeir baráttuna við krabbameinið og hvernig var að ganga í gegnum efnahagshrunið. 

„Það skiptir engu máli hvað kemur fyrir þig í lífinu,“ segir Óskar. Það skiptir máli hvernig þú tekur á því. Það er það eina sem skiptir máli.

Óskar lýsir síðan hvernig það var að fá greiningu um krabbamein í heila á lokastigi. „Ég fékk hausverk á Þorláksmessu 2019. Var að drepast í höfðinu og sagði dóttur mína: Ég er örugglega að fá flensu,“ segir Óskar.

Verkirnir ágerðust þar til um kvöldið að kona hans hringdi á sjúkrabíl. Óskar endaði á gjörgæslu um nóttina. Klukkan átta morguninn eftir komu svo tíðindin. „Á aðfangadagsmorgun koma tíðindin að ég sé með stórt heilaæxli hægra megin.“

Óskar brást rólegur við fréttunum og var sannfærður að æxlið væri góðkynja - og yrði hreinsað út. Hann beið svo greiningar þar til 17. janúar.

„Ég fór upp á spítala salí-rólegur. Við setjumst inni á hjá lækninum og hann segir: „Ég hef bara ekki góðar fréttir. Ég hef í raun mjög slæmar fréttir fyrir þig. Þú ert með mjög sjaldgæft krabbamein og það er komið á fjórða og lokastig. Þannig ég get í raun ekki flutt þér verri fréttir en ég er að flytja þér núna.“

Óskar segir að hann hafi allan tímann á meðan læknirinn talaði farið með æðruleysisbænina í huga sér. Við fréttirnar hafi kona hans brotnað niður og farið að hágráta. Hún hafi spurt hvort þetta þýddi að Óskar ætti 10 ár ólifuð - eða fimm? Læknirinn hafi þó gert þeim grein fyrir að það væri mun alvarlegri sjúkdóm um að ræða. Óvíst væri hvort Óskar myndi sjá jólin aftur.

„Það umturnast lífið og maður lítur allt öðruvísi á hlutina. Lífið verður bara allt allt annað. Og að vita ekki hvort þú verðir á jólunum. Það er rosalega skrýtin tilfinning sem læðist að þér þá.“

Óskar segir að hann hafi fengið ævintýralegan styrk inni hjá lækninum. Hann sagði við hann:

„Ég hef ekki jafn miklar áhyggjur af þessu eins og þú. Ég held ég eigi eftir að taka dálítið vel á þessu.“

Þegar hann spurði hvað væri hægt að gera í stöðunni sagði læknirinn að hans tegund af krabbameini lyfði á hvítum sykri og var honum ráðlagt að taka hann út. Þá var honum einnig tjáð að hann mætti ekki keyra. 

„Þú ætlar að taka af mér sykurinn og taka af mér bílprófið. Er það eitthvað meira? Þá sagði hann loks nei.“

Erfiðast að segja börnunum

Erfiðasta raunin var þó enn eftir segir Óskar. Það var að segja börnum sínum frá stöðunni.„Það held ég að sé það erfiðasta sem ég hef gert á lífsleiðinni. Að segja börnunum að það sé farið að styttast verulega í annan endann. Það var rosalega erfitt. Það var rosalega vont og erfitt,“ segir Óskar.

Óskar hefur æðruleysisbænina enn að leiðarljósi.

„Maður finnur það er ekki það sem kemur fyrir mann. Vitið þið það. Það er að átta sig á því hvað maður á marga vini. Hvað margir stigu fram. Rétta manni hjálparhönd. Létta undir með manni. Það var ótrúlegt að upplifa það - hvað margir komu og stóðu þétt við mann. Og voru tilbúnir að gera ótrúlegustu hluti fyrir mann. Það er eitthvað sem maður gleymir ekki. Það hefur veitt mér ævintýralegan styrk að finna hvað vinahópurinn er þéttur - hvort sem það eru ættingjar, AA fólkið og Frímúrarnir. Allir tilbúnir að gera meira en þeir gátu gert. Síðan er liðið núna gott eitt og hálft ár - að verða tvö ár. Þannig ég er kominn langt fram úr meðaltalinu og er rosalega þakklátur fyrir það,“ segir Óskar.

Viðtalið við Óskar má hlusta á í heild sinni á hlaðvarpsvef mbl.is sem og á öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Þættir