Nói tók á móti Danadrottningu

INNLENT  | 24. janúar | 17:05 
„Hann var auðvitað alveg í skýjunum eftir þetta, undirbjó sig vel þó að fyrirvarinn hafi verið skammur,“ segir Einar Helgi Þorsteinsson, kennari og uppeldisfræðingur í Kaupmannahöfn, en átta ára sonur hans, Nói Kempf Einarsson, var annar tveggja nemenda Det Kongelige Vajsenhus sem tóku á móti dönsku konungsfjölskyldunni við Amalíuborg sl. föstudag.

„Hann var auðvitað alveg í skýjunum eftir þetta, undirbjó sig vel þó að fyrirvarinn hafi verið skammur,“ segir Einar Helgi Þorsteinsson, kennari og uppeldisfræðingur í Kaupmannahöfn, en átta ára sonur hans, Nói Kempf Einarsson, var annar tveggja nemenda Det Kongelige Vajsenhus sem tóku á móti dönsku konungsfjölskyldunni við Amalíuborg sl. föstudag þegar skartgripasýning var opnuð í tilefni 50 ára krýningarafmælis Margrétar Danadrottningar. Voru allir helstu fjölmiðlar Danmerkur viðstaddir athöfnina.

 

Nói stóð á rauðum dregli fyrir utan höllina og tók á móti Margréti og systur hennar, Benediktu, með blóm í hendi. Nói var fenginn úr hópi nemenda skólans í þetta hlutverk, ásamt bekkjarsystur sinni, Elínu Juul Christiansen, sem tók á móti Friðriki krónprins og Mary krónprinsessu. Að sögn Einars gerist það reglulega að konungsfjölskyldan fær börn úr skólanum til að taka þátt í ýmsum opinberum viðburðum á hennar vegum.

 

 

 

 

Undirbjó sig vel heima

Nói mætti að sjálfsögðu snyrtilegur til fara í Amalíuborg en Einar segir son sinn elska að klæða sig upp á í fín föt. Svo skemmtilega vildi til að hann mætti bláklæddur, líkt og Margrét drottning, og í prjónuðu vesti frá ömmu sinni á Íslandi, Ragnheiði Steinbjörnsdóttur. Hún og afinn, Þorsteinn Birgisson, fylgdust vel með fregnum af viðburðinum og danski afinn og amman, Claus og Helle, stóðu álengdar með myndavélar fyrir utan höllina.
„Það var vel tekið á móti Nóa og bekkjarsystur hans í höllinni og vel passað upp á þau. Nói hafði undirbúið sig vel heima, en við vissum ekki hvort hann myndi hitta drottninguna. Hann æfði sig að hneigja sig og gerði það vel er Benedikta kom, sem þakkaði honum fyrir blómin. Síðan kom drottningin en hún sagði ekkert og tók við blómunum, áður en hún hélt inn í höllina á sýninguna. Við fengum svo þakkarpóst frá konungsfjölskyldunni, gegnum skólann, sem verður líklega hengd upp á vegg í ramma,“ segir Einar.
Einar er sem fyrr segir kennari og uppeldisfræðingur, býr í Nørrebro í Kaupmannahöfn ásamt konu sinni, Cecilie Kempf Petersen, sem einnig er uppeldisfræðingur. Auk Nóa eiga þau dótturina Sögu Kempf, sem er í leikskóla. Hann segir allar líkur á að hún gangi sama menntaveg og stóri bróðir, sem hefur verið tvö ár í skólanum en Nói verður 9 ára á þessu ári. Um grunnskóla er að ræða, með 6-16 ára nemendur.

 

Skóli með langa sögu

„Þetta er mjög góður skóli og vel hugsað um nemendurna, mikið lagt upp úr tónlist og einnig eru skáktímar einu sinni í viku, auk hefðbundinna námsgreina að sjálfsögðu,“ segir Einar en skólinn hefur kristileg gildi jafnframt í hávegum. Hann gefur út allar sálmabækur í Danmörku og er m.a. fjármagnaður með þeirri útgáfu, auk framlaga frá konungsfjölskyldunni og einkafyrirtækjum.

 

Skólinn var stofnaður árið 1727 af Friðriki IV. Danakonungi, ætlaður til að styðja börn úr fátækum fjölskyldum til mennta. Det Kongelige Vajsenhus nefnist skólinn á frummálinu og er starfræktur í dag sem einkaskóli, til húsa við Nørrefarimagsgade í Kaupmannahöfn.
Danadrottning er verndari skólans. Á stríðstímum var skólinn meira ætlaður börnum danskra hermanna sem féllu í valinn. Fyrir um 10 árum var skólinn opnaður börnum frá hefðbundnum heimilum, sem greiða þá skólagjöld, en um helmingur nemenda sækir hann frítt.

 

Við stofnun skólans á sínum tíma færði Friðrik Danakonungur það skilyrði í letur um að skólanum yrði aldrei lokað, sama hvað á dyndi. Hefur skólinn alltaf starfað undir verndarvæng dönsku konungsfjölskyldunnar, sem hefur verið með sinn fulltrúa í stjórn. Einnig hafa fulltrúar einkafyrirtækja verið í stjórninni. Skólinn á sér því langa og merkilega sögu en á sínum tíma vandi H.C. Andersen komur sínar þangað og las upp úr ævintýrabókum sínum fyrir nemendur.

 

Þættir