Áttum ekki samleið, áfengi og ég

INNLENT  | 11. ágúst | 11:32 
Ragnhildur Aðalsteinsdóttir var aðeins 26 ára þegar hún ákvað að breyta lífi sínu og hætta að drekka. Nú hefur hún verið edrú í tvo áratugi og nýtur lífsins í botn.

Ragnhildur Aðalsteinsdóttir, ljósmyndari og leiðsögumaður, segist fljótt hafa gert sér grein fyrir því að hún höndlaði ekki áfengi. 

„Mér fannst ég vera hrókur alls fagnaðar og það var svo gaman. En fljótlega fann ég að það var enginn stoppari og mig langaði alltaf í meira og meira. Ég fór að gera skandala og fara í blakkát og eina sem drykkjan gaf mér var meiri vanlíðan og meiri kvíði. Ég fattaði það strax sem unglingur að þetta væri málið en að sama skapi langaði mig ekki að sleppa þessu,“ segir hún.

Svo kom fiðringurinn 

„Ég varð svo ólétt, og eðlilega hætti að drekka, og hugsaði svo þegar sonur minn fæddist að nú væri tími til að hætta að drekka. En um leið og ég var að hætta með hann á brjósti kom fiðringurinn í mig; mig langaði svo að drekka,“ segir Ragnhildur og segist þá hafa kynnst fundum hjá 12 spora samtökum. Ragnhildur var þá 26 ára og dreif sig á fund.

„Ég fann mig þar og gat gert upp fortíðina og losað mig við þessa löngun í áfengi. Í dag er þetta bara lífsstíll og ég spái ekkert í þetta. Mitt djamm er núna að vakna snemma á laugardagsmorgni, hitta gott fólk og fara út í náttúruna,“ segir Ragnhildur.

Viðtal má finna við Ragnhildi í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina, en hún var gestur Ásdísar Ásgeirsdóttur í Dagmálum. Þáttinn í heild má nálgast hér

Þættir