Fleira er matur en feitt kjöt og pizza með þremur áleggjum

INNLENT  | 21. nóvember | 13:07 
Nanna Rögnvaldardóttir er fjölfróð um mat og matarhefðir og afkastamikill matreiðslubókahöfundur. Hún hætti fastri vinnu hjá Forlaginu í vor en ekki alveg að vinna, heldur velur hún verkefni af kostgæfni, eins og hún greinir frá í viðtali í Dagmálum.

Nanna Rögnvaldardóttir er fjölfróð um mat og matarhefðir og afkastamikill matreiðslubókahöfundur. Hún hætti fastri vinnu hjá Forlaginu í vor en ekki alveg að vinna, heldur velur hún verkefni af kostgæfni, eins og hún greinir frá í viðtali í Dagmálum.

Nanna segist alltaf hafa haft mikinn áhuga á mat og þá ekki bara að elda, það hafi komið seinna, en að lesa um mat og grúska, velta hlutum fyrir sér hafi verið eitthvað sem hún fór að gera þegar hún var barn. „Það er svo skrýtið að þegar ég rekst á bók sem ég las sem barn kann ég kafla þar sem minnst er á mat næstum utanbókar og margar bækur sem ég las sem yngri þá man ég aðeins það sem sagt er um mat.“

https://www.mbl.is/mogginn/dagmal/menning/233427/

Með tímanum sankaði Nanna að sér ýmsum upplýsingum um mat og hráefni til matargerðar og fór að gera tilraunir og skrifa hjá sér hvernig til tókst, enda segist hún afskaplega óskipulögð og gleymin og hafa fundist hún alltaf vera að fletta upp sömu hlutunum. „Ég fór því að skrifa þetta hjá mér og safna saman og þegar ég var komin með tölvu gekk þetta mun betur. Ég var komin með nokkra tugi blaðsíðna með alls konar glósum, en það voru ekki uppskriftir heldur alls konar upplýsingar um mat og hráefni.

Ég fór að dreifa þessu á meðal kunningja í fjölriti, en þetta var komið yfir hundrað síður og ég var að stelast í að ljósrita í vinnunni. Mér fannst ég þó ekki alltaf geta verið að gera það, ég myndi lenda í vondum málum ef ég væri að ljósrita meira en hundrað síður í nokkrum eintökum svo ég ákvað að ég myndi nú hætta þessu, ljósrita síðustu útgáfuna og svo ekki meir.

Þetta hét nú alltaf einhverjum sérstökum nöfnum og mig minnir að þessi útgáfa hafi heitið Fleira er matur en feitt kjöt og pizza með þremur áleggjum. Svo þurfti ég að hlaupa frá ljósritunarvélinni og þegar ég kem aftur að henni þá stendur Jón Karlsson, forstjóri Iðunnar, þar sem ég var að vinna þá, og er að blaða í þessu. Ég hugsaði: Ó, nú er ég í vondum málum. Hann spurði mig hvað þetta væri og ég svaraði því. Þá sagði hann bara: Heyrðu Nanna, nú tekur þú þann tíma sem þarf til að gera úr þessu bók og ég gef hana út.“

Þetta var upphafið að fyrstu bók Nönnu, Matarást, sem Iðunn gaf svo út 1998, 700 blaðsíður í stóru broti og var endurprentuð 2002. Alls eru bækur Nönnu orðnar 23 á 23 árum, nú síðast Countdown to Christmas, sem kom út í vor, eftir að hafa beðið af sér Covid-tíma, en í henni eru dagarnir fram að jólum taldir niður með uppskriftum og fróðleik um íslenskar jólahefðir í mat og drykk.

Þættir