Fjármögnun bankanna mjög krefjandi

VIÐSKIPTI  | 30. desember | 10:05 
Stórir skuldabréfasjóðir sýna útgáfum íslensku bankanna ekki mikinn áhuga. Útgáfurnar eru litlar og ekki nægjanlega seljanlegar í ástandi sem einkennist af óvissu á alþjóðlegum fjármálamörkuðum. Krefjandi verkefni mætir stjórnendum bankanna við að tryggja langtímafjármögnun þeirra.

Það hrukku ýmsir í kút í nóvember síðastliðnum þegar Íslandsbanki gaf út almenn skuldabréf í sænskum og norskum krónum þar sem álagið á þriggja mánaða millibankavexti var annars vegar 425 punktar og hins vegar 475 punktar. Hafa fjármögnunarkjör bankanna versnað til muna síðustu mánuði eftir því sem útlitið hefur orðið dekkra á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

mbl.is

Fjármögnun bankanna kom til umræðu í áramótaþætti viðskiptahluta Dagmála þar sem bankastjórarnir þrír, Birna Einarsdóttir, Benedikt Gíslason og Lilja Björk Einarsdóttir mættu til leiks. Þar fóru þau yfir það hversu krefjandi fjármögnun bankanna er um þessar mundir en ýmsar ástæður liggja að baki því hversu vandasamt verkefnið er um þessar mundir.

„Evrópa er að skiptast í stór lönd með mjög seljanleg skuldabréf og svo eru það litlu löndin. Og við flokkumst sem lítið land og erum eitt það minnsta. Það er helst seljanleiki, ekki Ísland sérstaklega. Það eru Ísland, Tékkland, Rúmenía, Búlgaría, Slóvakía, öll þessi lönd sem eru minni og við sem fjármálafyrirtæki í minni löndum finnum fyrir því. Og önnur íslensk fyrirtæki sem eru á erlendum mörkuðum. Þannig að það er viðvarandi verkefni fyrir okkur að fást við því þetta er eitthvað sem mætir okkur, hvort sem við heitum Arion, Íslandsbanki eða Landsbanki,“ segir Lilja Björk til útskýringar á ástandinu.

mbl.is

Hún bendir á að mikilvægt sé að halda viðskiptasamböndum lifandi og leita nýrra tækifæra til þess að tryggja stöðuga langtímafjármögnun bankanna. Þar verði m.a. að lít til þess að stórir fjárfestar hafa lítinn áhuga á að setja sig inn í stöðu mála á Íslandi. Gott væri ef Seðlabanki og fjármálaráðuneyti legðust á sveif með bönkunum við að kynna hversu öflugur þróttur sé í hagkerfinu hér á landi.

Vonbrigði að þingið skyldi bregðast

Lilja Björk bendir einnig á að það hafi reynst mikil vonbrigði þegar í ljós kom að ekki náðist í gegn frumvarp í þinginu fyrir áramót sem  varðaði aðgengi íslenskra fjármálafyrirtækja að skuldabréfamarkaði í Evrópu. Til þess að bréf bankanna, gefin út í evrum, teldust gjaldgeng til endurhverfra viðskipta hefði þurft að tryggja þessa lagasetningu. Það hafi hins vegar ekki náðst sem geri það að verkum að bankarnir fiski nú í mun minni tjörn eftir fjármagni en ef löggjöfin hefði náð í gegn.

Benedikt Gíslason segir að álagið á skuldabréfamarkaði sé m.a. komið til af því að stórir skuldabréfasjóðir sýni útgáfum bankanna hér heima lítinn áhuga.

„Þetta er tæknilegs eðlis [...] mikið til eru þetta skuldabréfasjóðir sem fjárfesta í þessum pappírum og þeir eru hræddir um að fjárfestar taki fé úr sjóðunum og eru þar af leiðandi mikið að hugsa um að eiga seljanlega pappíra komi til innlausna og því miður eru okkar útgáfur það litlar og ekki nægjanlega seljanlegar að það er ekki ákjósanlegt fyrir þessa sjóði að eiga þær. Þess vegna verðum við að finna nýja markaði, finna nýja fjárfesta og það skortir ekki áhuga erlendra aðila á að fjárfesta á Íslandi en þessi hópur er í sérstaklega vondri stöðu, þessir skuldabréfasjóðir vegna tapa og innlausna.“

Viðtalið má í heild sinni sjá eða heyra hér:

mbl.is

Þættir