Vesturlönd verða að útvega Úkraínumönnum öflugri vopn til að berjast gegn innrás Rússa í landið vegna þess að rússnesk stjórnvöld sýna engin merki þess að þau muni breyta aðferðafræði sinni.
Þetta sagði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, í morgun.
„Við sjáum ekkert sem bendir til þess að Pútín forseti [Rússlands] hafi breytt markmiðum sínum....Eina leiðin fyrir varanlegan frið er að gera Pútín það ljóst að við hann mun ekki bera sigur úr býtum á vígvellinum. Þess vegna verðum við að útvega þyngri og háþróaðri vopn,“ sagði Stoltenberg er hann heimsótti Berlín, höfuðborg Þýskalands.
Leyfi liggur ekki fyrir
Hann kvaðst jafnframt búast fljótlega við ákvörðun um hvort sendir verði Leopard-skriðdrekar, sem eru smíðaðir í Þýskalandi, til Úkraínu. Varnarmálaráðuneyti Þýskalands segir að Vesturlönd geti byrjað að þjálfa úkraínskar hersveitir í notkun skriðdrekanna þrátt fyrir að ekki liggi fyrir ákvörðun þýskra stjórnvalda um leyfi til að senda þá til Úkraínu.
Pólverjar báðu Þjóðverja í morgun formlega um leyfi til þess að senda skriðdrekana til Úkraínu.