Mun örugglega styrkja stjórnina

INNLENT  | 31. desember | 12:10 
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag, að breytingar sem gerðar voru þar á ríkisstjórninni muni örugglega styrkja stjórnarsamstarfið. Konur eru nú í fyrsta skiptið í meirihluta í ríkisstjórn.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði eftir ríkisráðsfund á Bessastöðum í dag, að breytingar sem gerðar voru þar á ríkisstjórninni muni örugglega styrkja stjórnarsamstarfið. Konur eru nú í fyrsta skiptið í meirihluta í ríkisstjórn.

„Við erum að fara inn í lokakaflann á þessu stjórnarsamstarfi þar sem mörg verkefni eru fyrir höndum. Það var tilkynnt í september 2010 að það yrði fækkun í ráðherraliðinu þegar að þessum breytingum myndi koma,“ sagði Jóhanna.

Um gagnrýni, sem kom fram á breytingarnar á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar í gærkvöldi, sagði Jóhanna, að það sýndi styrkleika að flokkurinn gæti rætt opið og hreinskiptið um svona mál.

Þarf að koma hjólum atvinnulífsins betur í gang

Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, sagði eftir ríkisráðsfundinn, að breytingarnar á ríkisstjórninni hefðu ekkert með Evrópumálin að gera eins og Jón Bjarnason, fráfarandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, fullyrti. Verið væri að gera breytingar á ríkisstjórninni í samræmi við stjórnarsáttmálann. Aðspurður um ólgu í flokki hans vegna breytinganna sagði hann, að vissulega væru svona breytingar erfiðar en hann teldi ekki að þær myndu hafa áhrif á stjórnarsamstarfið.

Steingrímur lætur nú af embætti fjármálaráðherra og tekur við embættum sjávarútvegs-, landbúnaðar, efnahags- og viðskiptaráðherra og mun bæta iðnaðarráðuneytinu við þegar Katrín Júlíusdóttir fer í fæðingarorlof, væntanlega í febrúar. Til stendur að sameina þessi ráðuneyti í eitt atvinnuvegaráðuneyti.

Um þetta sagði Steingrímur, að hann kveddi fjármálaráðuneytið með miklum söknuði og eftirsjá og hann væri afar þakklátur því góða fólki, sem þar hefði unnið mikið þrekvirki undanfarin þrjú ár við að glíma við þær ógnarlegu aðstæður sem upp komu í hruninu.

„En nýjar aðstæður kalla á nýjar áskoranir. Ég helli mér þá í efnahags- og atvinnumálin. Það er spennandi áskorun en um leið þarf að glíma þar við mörg erfið viðfangsefni. Nú þurfum við að koma hjólum atvinnulífsins betur í gang og hagvexti og skapa störf. Það er að mörgu leyti mjög spennandi að búa til öflugt atvinnuvegaráðuneyti til að gera það,“ sagði Steingrímur.

 

Þættir