Ekki vitað hvað gerðist

INNLENT  | 16. september | 13:10 
„Það er ekki vitað í augnablikinu hvað gerðist. Þetta var mjög kröftug sprenging, hlutir úr íbúðinni þeyttust tugi metra. Fyrst héldu nágrannar að þetta væri jarðskjálfti,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

„Það er ekki vitað í augnablikinu hvað gerðist. Þetta var mjög kröftug sprenging, hlutir úr íbúðinni þeyttust tugi metra. Fyrst héldu nágrannar að þetta væri jarðskjálfti,“ segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu.

Sprenging varð í íbúð í fjölbýlishúsi við Ofanleiti í Reykjavík um klukkan 11 í morgun. Karlmaður, sem bjó í íbúðinni, brenndist alvarlega og er nú á slysadeild Landspítalans.

„Það er ýmislegt sem getur valdið svona kröftugri sprengingu í heimahúsi og margt sem hefur áhrif, t.d. hversu þétt íbúðin er, hvort súrefni kemst að. Það er möguleiki á svo mörgu.“

Að sögn Jóns Viðars hefur ekki verið hægt að rannsaka eldsupptök, því ekki er á færi annarra en reykkafara að fara inn í íbúðina vegna mengunar. „Þegar við komum á staðinn stóðu eldsúlurnar út úr gluggunum báðum megin í íbúðinni. Það er mesta mildi að rúðurnar í íbúðinni fyrir ofan skyldu ekki brotna.“

Eldurinn breiddist ekki út í nærliggjandi íbúðir eða á stigagang. Óskað hefur verið eftir því við íbúa í stigaganginum  að þeir fari ekki inn í íbúðir sínar á næstunni og hefur Rauði krossinn verið þeim innan handar um dvalarstað.

 

Þættir