„Frábær dagur í Bláfjöllum“

INNLENT  | 16. March | 15:38 
„Þetta er búinn að vera frábær dagur í dag og útlitið er mjög gott á morgun,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, en um 4.000 manns hafa notið þess að renna sér á skíðum í Bláfjöllum í mjög góðu veðri í dag.

„Þetta er búinn að vera frábær dagur í dag og útlitið er mjög gott á morgun,“ segir Einar Bjarnason, rekstrarstjóri í Bláfjöllum, en um 4.000 manns hafa notið þess að renna sér á skíðum í Bláfjöllum í mjög góðu veðri í dag.

Einar segir að janúar og febrúar hafi ekki verið góðir í Bláfjöllum, en aðeins hafi verið hægt að halda skíðasvæðinu opnu í um sjö daga í janúar og eitthvað svipað í febrúar. „Eftir 16. febrúar gekk á með rigningu og hitatíð. Við gátum því ekki opnað aftur fyrr en um miðja síðustu viku. Nú erum við hins vegar búin að hafa opið samfleytt í rúma viku og útlitið er mjög gott næstu 3-4 daga.“

Einar segir að í hitatíðin í febrúar hafi tekið á taugarnar hjá starfsfólki í Bláfjöllum. „Við misstum um einn metra af snjó í febrúar. Við gripum til þess ráðs að flytja snjó með vörubílum á barnasvæðið. Það tók okkur um tvo daga, en ef við hefðum ekki gert þetta hefðum við ekki getað opnað núna.“

Skíðasvæðið í Bláfjöllum hefur verið opið í um 40 daga það sem af er vetri. Einar segir að það sé yfir meðallagi síðustu 6-7 ára.

Einar var spurður hvernig veðrið í Bláfjöllum yrði um páskana: „Eigum við ekki að segja að það verði bongóblíða og gott færi.“

Þættir