Netscape vafrinn að syngja sitt síðasta

Í kjölfar sátta hjá hugbúnaðarrisunum AOL/Time Warner og Microsoft hefur AOL ákveðið að hætta þróun Netscape vafrans sem á sér langa sögu og hefur um árabil verið helsti keppinautur Internet Explorer vafrans. Fimmtíu starfsmönnum Netscape hefur verið sagt upp, aðrir hafa verið fluttir milli deilda og aðeins fáeinir starfsmenn vinna enn að vafranum við að ganga frá lausum endum.

AOL keypti Netscape árið 1998 og höfðu margir bundið vonir um að vafrinn yrði innlimaður í America Online netþjónustuna sem er sú stærsta í Bandaríkjunum og myndi þannig koma af stað aukinni samkeppni við Internet Explorer sem er nánast einráður á vaframarkaðnum. Samningur AOL og Microsoft sem kveður á um að AOL muni notast við Internet Explorer a.m.k. næstu sjö árin gerir þær vonir að engu og þýðir að AOL hefur lítið gagn af því að eiga annan vafra á borð við Netscape. Allri vinnu við vafrann verður því hætt og er síðasta útgáfa hans að öllum líkindum því þegar komin út.

AOL hefur einnig fjármagnað mozilla.org hópinn sem unnið hefur að þróun Mozilla vafrans sem er frjáls hugbúnaður og Netscape hefur verið byggður á síðustu ár. Mozilla hópnum verður breytt í stofnun sem mun áfram sjá um þróun og útgáfu Mozilla vafrans. AOL styrkir stofnunina með tveimur milljónum bandaríkjadala en auk fyrirtækisins styrkja Red Hat og Sun Microsystems Mozilla stofnunina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert