Símaskráin selur tölvupóstföng

Símaskráin hefur selt lista með tölvupóstföngum til aðila sem hafa notað hann til að dreifa ruslpósti, að því er segir í frétttilkynningu frá Friðriki Skúlasyni ehf.

„Auk vírusvarnarforritsins F-PROT Antivirus býður Friðrik Skúlason ehf. (FRISK Software) upp á F-PROT AVES póstsíunarþjónustuna sem síar tölvupóst og hreinsar burt ruslpóst og vírusa. Það er sjaldgæft að ruslpósti sé dreift af íslenskum aðilum en fyrirtækið varð þó vart við slíkan póst nýlega.

Við athugun á því hvaðan sendandi þessa pósts hefði fengið þann póstfangalista sem notaður var, kom í ljós að listinn hafði verið keyptur frá Símaskránni.

Þetta kom á óvart, sökum þess að þegar símanotendur skrá tölvupóstföng sín er þeim ekki gerð grein fyrir því að þessar upplýsingar séu seldar aðilum sem muni nota þær til að dreifa ruslpósti.

Friðrik Skúlason ehf. (FRISK Software) leggur ekki mat á það viðskiptasiðferði sem hér liggur að baki, en vill hvetja alla þá sem ekki hafa þegar látið bannmerkja sig í símaskránni til að gera slíkt sem fyrst, þar sem tölvupóstföng bannmerktra aðila eru undanskilin á þeim listum sem eru seldir.

Við viljum ennfremur hvetja stjórnvöld til að gera nauðsynlegar breytingar á lagaumhverfi tölvupóstsendinga, því sökum þess hve núgildandi lög eru gloppótt hafa tölvunotendur hérlendis enga lagalega vörn gegn ákveðnum tegundum ruslpósts," að því er segir í fréttatilkynningu.

mbl.is