Vefsíðunni Torrent.is verður ekki lokað

Aðstandendur vefsíðunnar Torrent.is hafa ákveðið að verða ekki við beiðni lögmanna SMÁÍS, Samtóns og Framleiðendafélagsins um að loka vefsíðunni, að því er segir í tilkynningu frá aðstandendum síðunnar.

Fram kemur að lögmennirnir hafi sent bréf til Svavars Lútherssonar, skráðum eigenda lénsins Torrent.is þann 16. október s.l. þar sem því hafi verið haldið fram að Svavar, stjórnendur og notendur Torrent.is brytu eða ættu hlutdeild í brotum á höfundalögum. „Engin rök eru fyrir fullyrðingum lögmannanna. Aðstandendur Torrent.is vísa öllum kröfum lögmanna á bug enda starfar vefsíðan alfarið eftir gildandi löggjöf,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að Torrent.is hafi frá upphafi bannað alla notkun sem talin er geta verið í bága við höfundalög. Höfundar sem telja að vísað sé á verk eftir þá í leyfisleysi hafa getað tilkynnt slíka misnotkun til stjórnenda Torrent.is.

„Samkvæmt könnun Hagstofunnar, „Notkun heimila og einstaklinga á tæknibúnaði og interneti“, höfðu 26% netnotenda (69.855 einstaklingar) notað jafningjanet til að skiptast á tónlist, kvikmyndum eða öðru þess háttar. Ennfremur sögðust 38% netnotenda (102.095 einstaklingar) sækja sér leiki, tónlist eða myndir með einhverju móti gegnum netið. Því má ætla að þriðjungur þjóðarinnar nýti sér internetið til að ná í tónlist, kvikmyndir, hugbúnað og fleira. Aukning í notkun jafningjaneta milli áranna 2005 og 2006 nam nítján prósentustigum og má vissulega þakka það aukinni umfjöllun fjölmiðla um þau kerfi sem í boði eru, ekki síst vegna mikillar fjölmiðlabaráttu rétthafasamtaka sem virðist ætla að hafa þveröfug áhrif. Fullvíst er að hér er fram komið enn eitt heimsmet sem þjóðin má vera stolt af,“ segir í tilkynningunni.

„Ekki er vitað til þess að hin aukna notkun Íslendinga á netinu til að sækja sér afþreyingarefni hafi haft áhrif á sölu sama efnis. Sala á innlendri tónlist hefur slegið öll met undanfarin ár en þó hefur dregist saman í sölu á erlendri tónlist í verslunum. Á því er þó einföld skýring enda hefur innflutningur einstaklinga á tónlistardiskum aukist mikið. Þrátt fyrir yfirlýsingar innlendra rétthafasamtaka, m.a. um meint tap sem næmi hundruðum milljóna, hefur þeim ekki tekist að birta sölutölur eða rannsóknir sem sanna að tengsl séu milli niðurhals á netinu og neikvæðra áhrifa á sölu, leigu eða aðsókn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert