Konur vinna enn flest húsverkin

Við bryggjuna í Osló. Norskir karlmenn eru latir við húsverkin …
Við bryggjuna í Osló. Norskir karlmenn eru latir við húsverkin og láta konurnar um þrjá fjórðu þeirra. mbl.is/Golli

Karlar koma heldur illa frá nýrri rannsókn sem gerð var við haskólann í Stafangri. Í rannsókninni var frammistaða kynjanna við húsverkin könnuð í 34 löndum og var niðurstaðan í stuttu máli sú að konur sjá enn að mestu um verkin á heimilinu. Þá sýndi rannsóknin að Norðurlöndin standa litlu framar en aðrar Evrópuþjóðir hvað þetta varðar. Vefsíða danska blaðsins Politiken segir frá þessu.

Daglegt líf 18.000 para á aldrinum 25 til 65 ára var skoðað og þau spurð hve miklum tíma þau eyddu í viku hverri í matreiðslu, hreingerningar, tiltektir, samveru með börnum og innkaup.

Almennt þá sjá konur um tvo þriðju húsverkanna á evrópskum heimilum en nokkru munar þó milli landa. Samræmi er t.d. milli stöðu kvenna í samfélaginu almennt, og í Danmörku, þar sem konur njóta meira jafnréttis en víða annars staðar er munurinn minnstur, eða aðeins sex klukkustundir á viku.

Í þessari norsku rannsókn koma Norðmenn sjálfir heldur illa út en norskar konur eyða að meðaltali 12 klukkustundum á viku í húsverk, en karlar aðeins 4. Konur í Noregi vinna því um þrjá fjórðu heimilisverkanna.

Enginn teljandi munur var á hlutfallinu á Norðurlöndum og annars staðar og segir Knud Knudsen, einn vísindamannanna sem gerði rannsóknina, að þetta sé í samræmi við jafnrétti á atvinnumarkaði, þar sem jöfnuði er hvergi nærri náð. Fáar konur séu t.a.m. prófessorar og verkfræðingar á Norðurlöndum, meðan kvenþjóðin sé nær alráð innan heilbrigðisstétta.

Langduglegustu, konurnar, eða vinnuþjökuðustu, finnast hins vegar í Suður Ameríku, konur í Chile eyða að meðaltali 38 klukkustundum í húsverk og konur í Brasilíu um 33 klukkustundum.

mbl.is

Bloggað um fréttina