Geta loks borað niður að möttli jarðar

Vísindamenn fagna þessum tíðindum, enda hafa þeir hingað til þurft …
Vísindamenn fagna þessum tíðindum, enda hafa þeir hingað til þurft að reiða sig á hraun og ösku við kannanir sínar á tilurð jarðar. RAX / Ragnar Axelsson

Vísindamenn halda því fram að nú sé loksins mögulegt að bora í gegnum jarðskorpuna og taka sýni úr möttli jarðar. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði Nature, en fyrir fimmtíu árum síðan var í fyrsta sinn reynt að bora niður að möttlinum.

Skortur á tækni og þekkingu um innviði jarðar hefur hingað til hindrað það að hægt sé að taka sýni úr möttlinum. Nú er þessi tækni hins vegar til staðar.

Í tímaritinu segir að ef allt gengur eftir áætlun muni borunin hefjast árið 2020. Forrannsóknir gætu þó byrjað í næsta mánuði.

Markmiðið er að læra meira um hvernig jörðin gengur fyrir sig að innanverðu, sérstaklega með tilliti til jarðskjálftavirkni. Þá segja vísindamenn að í möttlinum kunni að leynast vísbendingar um tilurð jarðar.

mbl.is