Samfélagsvefur vísindamanna

Bill Gates.
Bill Gates.

Bill Gates, stofnandi Microsoft, tilkynnti í dag að hann hefði slegist í hóp fjárfesta sem standa að baki samskiptavef sem auðveldar vísindamönnum að komast í kynni við aðra rannsakendur á sama vísindasviði. Þar má jafnframt koma tímamóta uppgötvunum á framfæri.

Framlag Gates og fleiri aðila honum tengdum nemur 35 milljónum dollara sem jafngildir tæpum 4,2 milljörðum íslenskra króna.  

Gates segir að markmiðið með þessu sé að frelsa þekkinguna sem verður til í vísindasamfélaginu úr fílabeinsturni fræðimanna. Það verði gert með að gera mikilsverðar niðurstöður aðgengilegar almenningi og samfélaginu til heilla.  

Hugmyndin er sprottin frá veirufræðingnum og tölvunarfræðingnum Ijad Madisc. Segist hann hafa fengið hugmyndina þegar hann vann að vísindarannsóknum í Boston og vildi hann leita sér þekkingar hjá öðrum sem gátu aðstoðað hann við rannsóknirnar.

Jafnframt vildi hann búa til vettvang þar sem vísindamenn gætu kynnt niðurstöður sínar og þannig komist í kynni við fólk sem væri að vinna á svipuðu starfssviði.  

Samfélagsvefurinn heitir ReasearchGate og eru 2,9 milljónir manna skráðir í hann frá 193 löndum. Flestir eru frá Þýskalandi, Indlandi, Bretlandi og Bandaríkjunum. Allir sem skrá sig á vefinn þurfa að skilja eftir upplýsingar um það hvaða menntastofnun þeir tilheyra og hvernig komast megi í samband við þá. 

Meðal annars hefur samskiptavefurinn leitt saman nígerískan og ítalskan vísindamann. Leitaði sá fyrrnefndi ástæðu fyrir dauða ungrar stúlku og gat hann sent gögn til Ítalans sem greindi þau og komst að því að stökkbreyttur gersveppur hefði borist frá plöntu og valdið dauða stúlkunnar.

Madish segir að þetta sé einungis eitt dæmi um það hvernig samfélagsvefurinn hafi leitt til áhugaverðra niðurstaðna. Ekkert gjald er tekið fyrir þær upplýsingar sem deilt er á vefnum.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert