EVE Online verðlaunaður af Sameinuðu þjóðunum

Skjáskot úr EVE Online
Skjáskot úr EVE Online

Netleikurinn EVE Online, sem tölvuleikjafyrirtækið CCP gefur út, er í hópi fimm sigurvegara í flokki afþreyingar og leikja í samkeppni Sameinuðu þjóðanna um bestu stafrænu lausnirnar, World Summit Award 2013.

Viðurkenningin hefur mikla þýðingu fyrir hugbúnaðariðnaðinn hér á landi að mati Jóhanns Péturs Malmquists, prófessors í tölvunarfræði við Háskóla Íslands og umsjónarmanns keppninnar hér á landi.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, er að vonum ánægður með verðlaunin en gat ekki bent á eitt tiltekið atriði sem hefði orðið þess valdandi að leikurinn vann samkeppnina. „Við erum afar stolt og ánægð með að hafa hlotið þessi verðlaun,“ segir Eldar. 

„Við höfum áður fengið verðlaun fyrir EVE Online á sviði tölvuleikja og tækni, og þá helst frá fjölmiðlum og á ráðstefnum sem tengjast þessum geira. Þetta kemur úr allt annari átt – sem er mjög skemmtilegt, góð viðurkenning og hvatning á því sem við hjá CCP erum að gera.“

Hann segir þessi verðlaun vera ágætis staðfestingu á því að orðspor EVE Online, og sá stafrænni heimur sem CCP hefur þar skapað í samvinnu við spilara leiksins, fari víða.

Leikinn segir hann í raun vera sérstakan heim með eigið hagkerfi og gjaldmiðli, samfélög og þjóðir, fyrirtæki og valdablokkir sem þrífast í þúsundum sólkerfa í órafjarlægð frá lífi okkar hér á jörðinni. Þar verða til atburðir á degi hverjum sem hafa áhrif á hundruðir þúsunda manna – um heim allan.

EVE Online býður spilurum upp á óteljandi möguleika til þátttöku í EVE heiminum. Atburðarrásin er búin til af spilurum – en ekki okkur hjá CCP, sem búum í raun til umgjörð heimsins sem spilarar síðan móta.

Þátttöka spilara leiksins við þróun hans gæti einnig hafa spilað inn í, en það á sér meðal annars stað í gegnum lýðræðislega kjörið ráð spilara (e. Council of Stellar Management) sem kosið er til árlega meðal spilara í lýðræðislegum kosningum.

Þá staðreynd að allir spilarar leiksins, hvar sem þeir eru í heiminum, spila leikinn í einum og sama leikjaheiminum á sama netþjón. Það eigi þó ekki við um Kína, sem spili á sínu eigin vefsvæði.

Leikinn segir hann frá upphafi hafa verið brautryðjandi í að kynna nýjungar í leikjahönnun. Nú síðast með því að tengja saman PC og PlayStation vélar, gegnum annan leik CCP; DUST 514 – og þar með spilara þessara tveggja leikja.

Hann bendir einnig á að í EVE geti fólk tekist á, byggt risageimskip og sprengt hluti í loft upp, án þess að nokkur maður láti lífið eða auðlindir jarðar eyðist. 

„Áhrif gjörða þinna í EVE hafa vissulega minna áhrif á umhverfi jarðar,“ segir Eldar. „Þegar þú eyðir pening í EVE ertu ekki að stuðla að ofneyslu eins og plagar stóran hluta hins Vestræna heims, þegar þú byggir þér geimskip í EVE ertu ekki að ganga á auðlyndir jarðar – stríð og átök í EVE hafa vissulega áhrif á alla þá sem taka þátt í þeim, og oft langt út fyrir þær raðir, en í þeim lætur engin lífið.“

Skjáskot úr leiknum
Skjáskot úr leiknum
mbl.is