Lykilorðum og notendanöfnum lekið

AFP

mbl.is hefur sannreynt að lykilorð og notendanöfn viðskiptavina Vodafone sem hakkari birti á netinu í nótt eru rétt. Sum lykilorðin eru dulkóðuð en önnur ekki. Þá hefur fjöldi mjög persónulegra sms-skilaboða verið birtur auk þess sem lesa má samskipti milli þingmanna.

Miðað við það sem blaðamenn mbl.is hafa séð í þessum gögnum er ástæða til að hvetja viðskiptavini Vodafone til að skipta um lykilorð í tölvupósti hjá sér. Ef einhverjir nota sama lykilorðið víðar, s.s. á Facebook eða öðrum samskiptamiðlum, væri ráðlegast að breyta því líka til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Málið litið alvarlegum augum

„Svo virðist sem hakkari sem réðist á vefsíðu Vodafone í nótt hafi náð í viðkvæm gögn ólíkt því sem talið var í fyrstu,“ segir í tilkynningu sem Vodafone sendi frá sér nú fyrir stundu. Fyrirtækið biðst nú velvirðingar á því að í upphaflegri tilkynningu í morgun haf iverið sagt að engar trúnaðarupplýsingar hafi komist í rangar hendur.

Annað kom snarlega í ljós, eins og mbl.is sagði frá stuttu síðar. Vodafone segir að unnið sé að því með færustu gagna- og veföryggissérfræðingum landsins að meta heildarumfang málsins. 

„Vodafone lítur málið afar alvarlegum augum og mun veita upplýsingar eftir því sem þær liggja fyrir,“ segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Listar með kennitölum, símanúmerum og netföngum

Gögnin sem hakkarinn komst yfir eru mjög viðamikil en þar eru m.a. notendanöfn og lykilorð að gmail-póstföngum sumra viðskiptavina Vodafone sem og skjöl þar sem tengd eru saman kennitölur, símanúmer og netföng.

Þá er sem fyrr segir birtur fjöldi sms-skilaboða sem unnt er að tengja við ákveðin símanúmer. Mörg þeirra eru afar persónuleg og má þar nefna: 

„Henti plastdraslinu i herberginu tinu i ruslid! Skil nuna afhverju tu att ekki peninga, skil hins vegar ekki hvad tu ert ad pæla?! Ef tu ætlar i skola og ad leigja ta tarftu ad hætta tessu, ef tu getur tad ekki ta tarftu ad fa adstod!!!“

Þá eru birt samskipti milli þingmanna, þar á meðal fundarboð í tengslum við mál eins og nýja stjórnarskrá.

„Gert er ráð fyrir þingflokksfundi síðdegis eða í kringum kvöldmat ef meirihlutinn tekur stjórnarskrármálið úr nefnd. Reynum að boða hann með nægum fyrirvara. Allt er óljóst með þinglok og verða þingmenn að gera ráð fyrir því varðandi sýn plön t.d. í næstu viku. Gert er ráð fyrir þingfuni í nótt og verðum við þar að deila tímanum með okkur,“ segir í skilaboðum sem virðast hafa  verið send á hóp þingmanna stjórnarandstöðunnar í mars á þessu ári.

Önnur sms-skilaboð eru svo hljóðandi: „Sæl aftur. Ég geri ráð fyrir að nú fari stjórnarþingmenn að draga okkur eitt og eitt afsíðis og bjóða gull og græna skóga í skiptum fyrir einstök mál. Það er afar mikilvægt að við sýnum stjórnarþingmönnum enga þreytu eða að við kvíðum sumarþingi. Þau verða að sjá svart á hvítu að við kvíðum engu.“

Fyrri fréttir mbl.is um málið:

Hakkari birtir persónuupplýsingar

Netárás á heimasíðu Vodafone

mbl.is

Bloggað um fréttina