Eldri krakkar telja sig vita meira

Tæplega 55% barna í 10. bekk telja sig vita meira um netið en foreldrar þeirra. Hlutfallið hækkar mikið eftir aldri en sambærilegt hlutfall hjá 4. bekkingum var 9%. Þetta kemur fram í könnun sem SAFT stóð fyrr á árinu um netnotkun barna og unglinga hér á landi.

Þegar íslensk börn í 4.-10. bekk voru spurð hvort þau teldu foreldra sína vita meira, minna eða jafnmikið um netið og þau sjálf kom í ljós að 34% töldu foreldra sína vita meira um netið en þau sjálf og tæp 36% töldu þá vita nokkurn veginn jafnmikið um netið og þau sjálf. Hins vegar töldu ríflega þrír af hverjum 10 sig vita meira um netið en foreldrarnir og hækkaði það hlutfall eftir aldri. Þannig töldu tæplega 55% barna í 10. bekk sig vita meira um netið en foreldrar þeirra á meðan sambærilegt hlutfall hjá 4. bekkingum var 9%.

Haft var samband við 1.500 foreldra barna á aldrinum 10-16 ára með tölvupósti þar sem þeim var kynnt könnunin með ítarlegum hætti og óskað eftir þátttöku þeirra og barna þeirra. Þeir sem samþykktu þátttöku fyrir sig og barnið fengu sendar með tölvupósti tvær slóðir sem vísuðu annars vegar í foreldrakönnunina og hins vegar í barnakönnunina. Foreldrar sem haft var samband við eru þátttakendur í viðhorfahópi Capacent Gallup. Þá svöruðu börn úr 4.-10. bekk í grunnskólum víða um land spurningalista í skólastofu.

mbl.is