Snjallúrin mæla líkamsstarfsemina

Samsung Galaxy Gear úrin.
Samsung Galaxy Gear úrin. LLUIS GENE

Tvö ný snjallúr frá Samsung hafa litið dagsins ljós. Úrin safna m.a. margvíslegum heilsufarsupplýsingum og henta því skokkurum og öðrum sem stunda líkamsrækt vel. 

Fyrsta Samsung Galaxy Gear-snjallúrið kom á markað síðasta haust en salan var dræm. Fólk virtist ekki mjög sólgið í að tékka stöðugt á tölvupóstinum sínum í gegnum úr - það vildi heilsufarsupplýsingar. Úr frá keppinautum á borð við Fitbit voru hins vegar rifin úr hillum verslana. 

En Samsung ætlar að setja á markað tvö ný úr, Gear 2 og Gear 2 Neo. Í þeim eru m.a. hjartsláttarmælir, skrefmælir og ýmsir aðrir mælar, s.s. þeir sem mæla álag við æfingar, svefn og streitu. Þá er myndavél á Gear 2-úrinu. Gear 2 Neo-úrið er ögn stærra og á því er engin myndavél. Það er hins vegar léttara.

Ein helsta gagnrýnin á fyrirrennara þessara úra var sú að rafhlaðan entist stutt, aðeins í einn dag. Nú lofar Samsung að nýju úrin haldi hleðslu í 2-3 daga með venjulegri notkun. Það er í takt við það sem helstu keppinautar bjóða. 

Úrin voru kynnt á ráðstefnu á Spáni á sunnudag. Þar kom ekki fram hvað þau myndu kosta. Þau koma í verslanir í apríl.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert