Vatn myndaði fjall á Mars

Setlög sem Curiosity myndaði á Mars 7. ágúst 2014.
Setlög sem Curiosity myndaði á Mars 7. ágúst 2014. NASA/JPL-Caltech/MSSS

Ný gögn sem könnunarjeppinn Curiosity hefur sent til jarðar frá Mars benda til þess að stór vötn hafi áður fyrr verið að finna á yfirborði reikistjörnunnar í lengri tíma. Það stangast á við fyrri hugmyndir manna um að vatn hafi aðeins verið til neðanjarðar eða á afmörkuðum hluta yfirborðsins í skamman tíma.

Curiosity hefur undanfarið gert jarðfræðilegar rannsóknir við Sharp-fjall, tæplega fimm kílómetra hátt fjall í Gale-gígnum. Athuganir könnunarjeppans benda til þess að fjallið hafi orðið til úr setlögum á botni stöðuvatns yfir tugi milljóna ára. Þetta bendir til þess að áður fyrr hafi Mars haft lofthjúp og loftslag sem gerði fljótandi vatn mögulegt á yfirborðinu. Ekki er vitað hvernig lofthjúpurinn varð til eða hvers vegna hann hvarf. 

„Ef kenning okkar um Sharp-fjall stenst þá storkar hún þeirri hugmynd að hlýjar og rakar aðstæður hafi verið tímabundnar, staðbundnar eða aðeins að finna neðanjarðar á Mars. Róttækari skýring væri að forni, þykki lofthjúpur Mars hefði hækkað hitastigið yfir frostmark yfir alla reikistjörnuna en við vitum enn ekki hvernig andrúmsloftið gerði það,“ segir Ashwin Vasavada, aðstoðarverkefnisstjóri Curiosity hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA. 

Gefur auknar vonir um að vísbendingar um líf finnist

Vísindamenn hafa velt vöngum yfir því hvers vegna lagskipt Sharp-fjallið stendur ofan í gíg. Skipting berglaganna í því sem vatn, ár og vindar hafa byggt upp bendir til þess að stöðuvatn hafi ítrekað fyllst og horfið, mun stærra og langlífara en menn hafa áður rannsakað í návígi.

Eftir að gígurinn fylltist af setlögum með árframburði upp í nokkur hundruð metra hæð að minnsta kosti og þau mynduðu berg, mótaði vindurinn þau í fjallið sem menn sjá í dag. Curiosity er nú við neðstu lög fjallsins en eftir því sem jeppinn klífur það búast vísindamenn við því að afla frekari gagna um þróun vatnsins sem þar var að finna.

Séu ályktanir vísindamannanna réttar og vatn hafi verið að finna á yfirborði Mars gefur það auknar vonir um að finna merki um líf sem kann að hafa kviknað á reikistjörnunni áður en vatnið hvarf. Enn liggja þó ekki nægar upplýsingar fyrir til að menn geti áttað sig á hversu lengi fljótandi vatn var á yfirborðinu eða hvort líf hafi náð að kvikna þar.

Í myndbandinu hér fyrir neðan útskýrir Ashwin Vasavada, aðstoðarverkefnisstjóri Curiosity hjá bandarísku geimvísindastofnuninni NASA, rannsóknir könnunarjeppans við Sharp-fjall.

Frétt á vef NASA um rannsóknir Curiosity við Sharp-fjall

mbl.is
ÞÝSKAR KERRUR _ FJÖLNOTA OG MEÐ STURTUM
L: 251,305,405,502,611 x B: 153,178,183,203,223 cm, burður 1350 til 3500 kg. Stu...
VolkswagenPolo 2006 til sölu
Vetrar og sumardekk, 4 dyra, ekinn 179 þ.km. Gott viðhald og smurbók. Verð 240 þ...
Giftingar- og trúlofunarhringar frá ERNU
Mikið úrval. Á mynd er silfurpar með alexandrite-steini sem gefur mikið litaflóð...
Einstakt vortilboð - 14,44 fm Garðhús - kr. 375.900,-
Naust er bjálkahús úr 34mm bjálka með tvöfaldri nót. Húsið er 3,8m x 3,8m og er...