Hverfur í heitan faðm Venusar

Tölvumynd af Venus Express við lofthemlun í lofthjúpi Venusar.
Tölvumynd af Venus Express við lofthemlun í lofthjúpi Venusar. ESA

Leiðangri könnunarfarsins Venus Express sem rannsakað hefur reikistjörnuna Venus undanfarin átta ár er lokið. Geimfarið kláraði eldsneyti sitt þegar stjórnendur þess reyndu að hækka sporbrautina eftir lofthemlunartilraunir fyrr á árinu. Það mun því sökkva dýpra í lofthjúp Venusar á næstu vikum.

Ólíkt bílum og flugvélum er enginn eldsneytismælir í geimförum. Því er erfitt fyrir stjórnendur þeirra að vita með vissu hversu mikið eldsneyti er eftir um borð, ekki síst þegar það hefur verið eins lengi úti í geimnum og Venus Express. Upphaflega átti leiðangur þess til Venus að standa yfir í 2-4 ár en farið entist í heil átta ár.

Venus Express hefur gert rannsóknir á reikistjörnunni og lofthjúpi hennar allt frá því að það komst fyrst á braut um hana árið 2006. Í byrjun sumars þegar stjórnendurnir hjá evrópsku geimstofnuninni ESA gerðu sér grein fyrir að lítið væri eftir af eldsneytinu ákváðu þeir að gera tilraunir með svokallaða lofthemlun í lofthjúpnum. Þá er loftmótsstaðan notuð til þess að lækka sporbraut farsins og hægja á því. Með þessu móti var hægt að rannsaka hluta af lofthjúpnum sem ekki hafði áður verið gert.

Þessar tilraunir veita vísindamönnum einnig dýrmæta reynslu af lofthemlun en sú aðferð getur nýst mönnum til að koma geimförum á braut um hnetti með lofthjúp án þess að þurfa að nota eins mikið eldsneyti og ella.

Sambandið rofnaði í lok nóvember

Nú í nóvember var svo ákveðið að reyna að færa sporbraut farsins ofar til að freista þess að framlengja leiðangurinn á meðan eldsneytisbirgðir þess entust. Stjórnendur Venus Express misstu samband við farið 28. nóvember. Samband hefur síðan náðst aftur en það hefur verið stopult og aðeins hefur verið hægt að afla takmarkaðra upplýsinga frá geimfarinu.

Af þessum ástæðum er talið líklegt að eldsneyti sporbrautarfarsins hafi klárast þegar það hafði lokið um helmingi þeirra tilfæringa sem var ætlað að koma því hærra. Án eldsneytis er ekki lengur hægt að stjórna hæð farsins eða beina því til jarðar til að halda uppi samskiptum við það. Einnig er ómögulegt að hækka brautina frekar. Því mun aðdráttarafl Venusar færa Venus Express dýpra ofan í faðm lofthjúps síns á næstu vikum. Þar mun það að líkindum á endanum brenna upp eða verða kramið undan gríðarlegum þrýstingnum við yfirborð reikistjörnunnar.

Lýkur með dýrðarljóma

Venus Express hefur fært mannkyninu mikilvægar upplýsingar um aðstæður á þessari nágrannareikistjörnu jarðarinnar. Til dæmis benda gögn sem það hefur sent til þess að Venus sé mögulega ennþá jarðfræðilega virk. Ummerki er um hraunrennsli á yfirborði fyrir aðeins 2,5 milljónum ára en það er sem augnablik á jarðfræðilegum tímaskala.

Aðstæður við yfirborð Venusar eru gríðarlega fjandsamlegar. Hitastigið er um 450°C, mun heitari en í venjulegum bakaraofni, og lofthjúpurinn er gríðarlega þétt blanda eitraðra lofttegunda. Engu að síður benda rannsóknir á efnasamsetningu lofthjúpsins til þess að áður fyrr hafi mikið magn vatns verið að finna í honum og mögulega hafi úthöf verið að finna á reikistjörnunni.

„Þó að við séum leið yfir því að leiðangurinn sé á enda þá erum við engu að síður glöð að hugsa um hinn mikla árangur sem Venus Express hefur skilað sem liður í reikistjörnuvísindaáætlun ESA og við erum þess fullviss að gögnin verði mikilvæg arfleið um ókomin ár. Leiðangurinn hefur staðið yfir mun lengur en til stóð og hann mun nú brátt enda í dýrðarljóma,“ segir Martin Kessler, yfirmaður vísindaaðgerða ESA.

Frétt á vef ESA um endalok Venus Express-leiðangursins

Fyrri frétt mbl.is: Tvöföld ending Venusarfars

Mynd af Venusi sem sett var saman úr myndum sem …
Mynd af Venusi sem sett var saman úr myndum sem Venus Express tók af reikistjörnunni á 18 klukkustunda tímabili. ESA/MPS/DLR/IDA, M. Pérez-Ayúcar & C. Wilson
Tölvuteiknuð mynd af Venus Express við lofthemlun. Þá var loftmótstaðan …
Tölvuteiknuð mynd af Venus Express við lofthemlun. Þá var loftmótstaðan í lofthjúpi reikistjörnunar notuð til að hægja á geimfarinu. ESA
mbl.is