Tvöföld ending Venusarfars

Tölvuteiknuð mynd af Venus Express við lofthemlun. Þá var loftmótstaðan …
Tölvuteiknuð mynd af Venus Express við lofthemlun. Þá var loftmótstaðan í lofthjúpi reikistjörnunar notaður til að hægja á geimfarinu. ESA

Vísindamenn evrópsku geimstofnunarinnar ESA freista þess nú að rétta við sporbraut könnunarfarins Venus Express um reikistjörnuna Venus til að farið geti haldið áfram að sinna vísindarannsóknum. Upphaflega átti farið aðeins að starfa í 2-4 ár en það hefur þegar enst í átta.

Dregið hefur verið úr vísindatilraunum sporbrautarfarsins Venus Express eftir að braut þess var breytt í kjölfar lofthemlunartilrauna þar sem lofthjúpur reikistjörnunnar var notaður til að hægja á því. Í þeim tilraunum hætti farið sér dýpra ofan í lofthjúp Venus en áður hefur verið reynt fyrir utan með lendingarförum.

Upphaflega átti Venus Express að rannsaka morgunstjörnuna Venus í tvö ár með möguleikanum á að framlengja leiðangurinn um tvö ár. Nú eru hins vegar átta ár liðin frá því að farið komst á braut um Venus og er ekki allt líf úr því enn.

Vegna áhrifa þyngdarsviðs Venusar og sólarinnar þá færist neðsti punktur sporbrautar Venus Express sífellt nær yfirborði reikistjörnunnar. Sekkur hann um 3-5 kílómetra á dag. Yrði ekkert að gert myndi farið á endanum brotna saman vegna loftmótstöðunnar en gríðarlega mikill munur er á þéttleika lofthjúps Venusar eftir hæð. Því hafa stjórnendur farsins undanfarið látið stýriflaugar farsins ýta því hægt og bítandi á hærri braut.

Sýnir getu ESA til að skipuleggja ferðir til reikistjarnanna

Framtíð geimfarsins veltur nú á því hversu mikið af eldsneyti þess er eftir um borð. Ómögulegt er fyrir stjórnendur þess að vita það nákvæmlega en leyfi hefur fengist til að halda leiðangrinum áfram fram á næsta ár eftir því sem birgðirnar endast.

„Það er svolítið dapurlegt til þess að vita að geimfarið mun fyrr eða síðar klára eldsneytið. Þegar við skutum Venus Express á loft var enginn sem hélt að það myndi endast svona lengi. Geimfarið hefur starfað í afar krefjandi umhverfi í fjölda ára. Við gátum notfært okkur og fest í sessi þá reynslu sem við öðluðumst með Rosetta og Mars Express-leiðöngrunum. Þetta hefur allt átt þátt í því að ESA hefur nú getu til þess að hanna og hrinda í framkvæmda leiðöngrum til reikistjarnanna,“ segir Andrea Accomazzo, yfirmaður sólar- og reikistjörnuleiðangradeildar ESA sem jafnframt var fyrsti yfirmaður Venus Express-leiðangursins.

Venus Express kom að Venus í apríl árið 2006 og hefur verið á braut um reikistjörnuna síðan. Farið hefur meðal annars rannsakað jónhvolf, andrúmsloft og yfirborð þessarar systurreikistjörnu jarðarinnar. Rannsóknir með innrauðu ljósi á efnasamsetningu yfirborðsins benda til þess að eitt sinn hafi verið jarðflekakerfi á Venus líkt og á jörðinni og að þar hafi jafnvel verið haf. Farið hefur einnig aflað upplýsinga sem gefa vísbendingar um að plánetan sé hugsanlega ennþá jarðfræðilega virk.

Frétt ESA af Venus Express-leiðangrinum

Venus Express rís á ný

Undirbúa flug niður til helvítis

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert