Nýr leikur CCP kynntur af SONY á E3

Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP.
Hilmar Veigar Pétursson, forstjóri CCP. Ljósmynd/CCP

Nýr leikur tölvuleikjaframleiðandans CCP, EVE Valkyrie, var kynntur á aðalkynningu SONY á einni stærstu leikjaráðstefnu heims E3 í gær. Leikurinn er jafnframt hluti af sýningarbás SONY á ráðstefnunni.

Þar gefst blaðamönnum og starfsfólki tölvuleikjaiðnaðarins kostur á að prófa leikinn sem væntanlegur er á markað fyrsta ársfjórðung á næsta ári, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

EVE: Valkyrie er svokallaðar VR (virtual reality) leikur sem verður fáanlegur fyrir Morpheus sýndarveruleikabúnað SONY á PlayStation 4 og Oculus RIFT sýndarveruleikabúnað Oculus VR fyrir PC tölvur. VR, eða sýndarveruleiki, er svið sem fjölmörg leikjafyrirtæki og mörg stærstu tæknifyrirtæki heims hafa verið að færa sig inn á undanfarið. Facebook tók skref inn á þann markað síðasta sumar með kaupum sínum á Oculus VR fyrir tvo milljarða bandaríkjadollara. 

E3, eða Electronic Entertainment Expo, er ein stærsta leikjaráðstefna heims – og sú allra stærsta sem aðeins er opin fagfólki og fjölmiðlum. Á ráðstefnunni, sem hefur gríðarmikið vægi í tölvuleikjaiðnaðinum, kynna helstu tölvuleikjaframleiðendur heims sínar nýjustu afurðir og fjölmiðlar alltaðar að úr heiminum koma saman til að sjá og heyra af því nýjasta sem er að gerast í tölvuleikjabransanum. Alls kynna þar 200 leikjaframleiðendur afurðir sínar. Í ár sækja yfir 30.000 manns ráðstefnuna sjálfa, auk þess sem milljónir manna fylgdust með því sem þar fram fór gegnum fjölmiðla, bloggsíður og samfélagsmiðla, að því er segir í tilkynningunni.

Nýtt kynningarmyndband fyrir EVE: Valkyrie var frumsýnt í tilefni E3:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert