Rosettu líklegast lent á 67P

Teikning af geimfarinu Rosettu við halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko.
Teikning af geimfarinu Rosettu við halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko. ESA/ATG

Leiðangur könnunarfarsins Rosettu sem hefur verið á braut um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko frá því í ágúst í fyrra hefur verið framlengdur þar til í september á næsta ári. Að þeim tíma loknum verður farinu líklegast lent á halastjörnunni.

Rosettu var skotið á loft árið 2004 og komst á braut um halastjörnuna í ágúst í fyrra eftir tíu ára ferðalag í gegnum sólkerfið. Í nóvember sleppti farið lendingarfarinu Philae sem lenti á yfirborði halastjörnunnar og gerði frekari rannsóknir áður en það lagðist í dvala. Philae vaknaði aftur í síðustu viku og hefur verið í sambandi við móðurfarið.

Upphaflega átti leiðangur Rosettu að standa yfir fram í desember á þessu ári en evrópska geimstofnunin ESA hefur nú staðfest að hann hafi verið framlengdur þar til í september 2016. Eftir þann tíma verður halastjarnan komin það langt frá sólinni að sólarrafhlöður Rosettu munu ekki ná að knýja vísindarannsóknir farsins skikkanlega.

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir vísindin. Við munum geta fylgst með hnignun í virkni halastjörnunnar þegar við fjarlægjumst sólina aftur og okkur mun gefast tækifæri til þess að fljúga nær halastjörnunni til að halda áfram að safna einstökum gögnum. Með því að bera saman nákvæm „fyrir og eftir“ gögn fáum við mun betri skilning á því hvernig halastjörnur þróast á lífsskeiði sínu,“ segir Matt Taylor, vísindamaður við Rosetta-leiðangurinn hjá ESA.

Færa farið nær þegar virknin minnkar aftur

67P/Churyumov-Gerasimenko mun fara næst sólinni 13. ágúst næstkomandi og hefur Rosetta fylgst með því hvernig virkni halastjörnunnar hefur aukist eftir því sem hún nálgast. Eftir því sem virknin minnkar þegar hún fjarlægist sólina aftur ætti að vera hægt að færa geimfarið nær halastjörnunni.

Nú er hugmyndin sú að láta Rosettu enda leiðangur sinn með því að svífa niður til yfirborðs halastjörnunnar á um þremur mánuðum. Hægt yrði að afla gagna allt undir það síðasta en eftir að farið lenti á yfirborðinu er talið ólíklegt að það geti haldið athugunum áfram og sent niðurstöður til jarðar. Þar með lyki einni best heppnuðu geimkönnun sögunnar.

Frétt á vef ESA um framlengingu leiðangurs Rosettu

Halastjarnan eins og hún kom fyrir augu Rosettu 5. júní …
Halastjarnan eins og hún kom fyrir augu Rosettu 5. júní sl. ESA/Rosetta/NavCam
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert