New Horizons hringdi heim

„Við erum með heilbrigt geimfar, það hefur safnað gögnum og við erum á leiðinni frá Plútó,“ lýsti Alice Bowman, leiðangursstjóri New Horizons, yfir skömmu eftir að loftnet á jörðu niðri námu fyrsta útvarpsmerkið frá geimfarinu eftir að það flaug fram hjá Plútó í dag við mikinn fögnuð.

Merkið barst þegar klukkuna vantaði um fimm mínútur í eitt að íslenskum tíma. Eftir að merkið náðist fór leiðangursstjórnin yfir stöðu undirkerfa geimfarsins og staðfestu umsjónarmenn þeirra einn af öðrum að öll kerfin væru í góðu lagi.

Þó að það muni taka geimfarið um það bil sextán mánuði að skila öllum gögnunum sem það aflaði í framhjáfluginu til jarðar bíða leiðangursstjórarnir og heimsbyggðin spennt eftir morgundeginum (15. júlí). Um klukkan 19 að íslenskum tíma ætti fyrsta nærmyndin af yfirborði Plútós sem New Horizons tók þegar það fór sem næst dvergreikistjönunni að skila sér til jarðar.

„Þetta er bara byrjunin. Við höfum ekki séð neitt ennþá,“ sagði John Grunsfeld, aðstoðarforstöðumaður vísindaleiðangra NASA á blaðamannafundi eftir að merkið barst frá geimfarinu.

Alan Stern, aðalvísindamaður leiðangursins, sagði að aðeins gögn um ástand geimfarsins hafi verið send til jarðar að þessu sinni og samskiptin hafi viljandi verið höfð sem styst. Um leið og New Horizons hafði gefið stöðuskýrslu sneri það sér aftur að athugunum á Plútókerfinu.

Lengri samskiptagluggi verður opnaður klukkan tæplega 10 árdegis að íslenskum tíma og mun hann standa yfir í nokkrar klukkustundir. Á meðal þeirra gagna sem þá eiga að berast eru nýjar myndir af Plútó í tíu sinnum hærri upplausn en þær sem það hefur áður sent, upplýsingar frá litrófsmæli og litmyndir af Plútó, Karoni og fleiri tunglum. Myndirnar verða birtar á blaðamannafundi NASA kl. 19 að íslenskum tima.

Frá leiðangursstjórn New Horizons í John Hopskins-háskóla í Maryland í …
Frá leiðangursstjórn New Horizons í John Hopskins-háskóla í Maryland í Bandaríkjunum. NASA
Líkan af New Horizons í Johns Hopskins-háskóla.
Líkan af New Horizons í Johns Hopskins-háskóla. AFP
mbl.is