Vísindanefnd sökuð um nornaveiðar

Repúblikanar í vísindanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings eru sakaðir um að misbeita …
Repúblikanar í vísindanefnd fulltrúadeildar Bandaríkjaþings eru sakaðir um að misbeita valdi sínu til að ógna vísindamönnum. AFP

Óánægja ríkir á meðal bandarískra vísindamanna vegna tilrauna vísindanefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings til að þvinga haf- og loftslagsstofnun landsins til að afhenda trúnaðarupplýsingar starfsmanna sinna. Nefndin er sökuð um nornaveiðar gegn vísindamönnum sem birta rannsóknir sem samræmast ekki hugmyndafræði formanns hennar.

Um miðjan október notaði vísindanefndin, sem repúblikaninn Lamar Smith frá Texas veitir formennsku, nýfengnar heimildir til að gefa út stefnur til að krefja haf- og loftslagsstofnunina NOAA um gögn sem ná yfir sjö ára tímabil sem tengjast loftslagsathugunum stofnunarinnar. Stofnunin hefur neitað að verða við því.

Tilefnið er rannsókn sem birtist í vísindatímaritinu Science í sumar en niðurstöður hennar bentu til þess að „hlé“ á hnattrænni hlýnun síðustu tvo áratugi sem kenningar hafa verið um hafi í raun ekki átt sér stað. Hlýnun jarðar hafi verið nánast sú sama á hverjum áratug frá miðri síðustu öld. Við rannsóknina leiðréttu vísindamenn NOAA meðal annars þekktar kerfislægar skekkjur í mælingum á hitastigi.

Segi „sannleikann“ um nýja greiningu gagna

Þessar niðurstöður féllu í grýttan jarðveg hjá formanni vísindanefndarinnar sem hefur, eins og fleiri sem neita að trúa samhljóða áliti loftslagsvísindamanna að loftslagsbreytingar eigi sér stað vegna losunar manna á gróðurhúsalofttegundum, ítrekað vísað til þessa hlés á hlýnun sem rök fyrir andstöðu sinni gegn hvers kyns loftslagsaðgerðum.

„Það var óheppilegt fyrir þessa ríkisstjórn að loftslagsgögn hafi greinilega sýnt enga hlýnun undanfarna tvo áratugi,“ sagði Smith meðal annars. Því telur hann að NOAA verði að „segja satt“ um hvers vegna  hún hafi kosið að breyta greiningu sinni á gögnum. Sjálfur er Smith lögfræðingur og hefur verið formaður vísindanefndarinnar frá árinu 2013.

Þrátt fyrir að öll gögn sem liggja að baki þessarar einstöku rannsóknar séu öllum aðgengileg, eins og annarra vísindalegra rannsókna stofnunarinnar, gaf Smith út stefnu á hendur NOAA til að krefja stofnunina um ekki aðeins vísindalegu gögnin heldur öll tölvupóstsamskipti vísindamanna, minnisblöð, hljóðupptökur og fleira.

NOAA hafði fram að því svarað öllum fyrirspurnum nefndarinnar, reynt að útskýra vinnubrögðin að baki rannsókninni og benda á að öll gögn um hana væru aðgengileg. Stofnunin hefur hins vegar neitað að verða við stefnunni um að afhenda önnur gögn sem Smith vill fá.

Uppfærð gögn NOAA sýndu að ekkert hlé hefði orðið á …
Uppfærð gögn NOAA sýndu að ekkert hlé hefði orðið á hlýnun jarðar. Sú niðurstaða féll ekki vel í kramið hjá öllum. AFP

Veiðiferð til að grafa undan rannsókninni

Ekki öllum í nefndinni hugnast vinnubrögð formannsins. Hæst setti fulltrúi demókrata í henni, Eddie Bernice Johnson, ritaði Smith harðort bréf þar sem hún harmaði framgöngu hans gegn NOAA. Hann væri í „veiðiferð“til að reyna að finna eitthvað til þess að grafa undan rannsókn stofnunarinnar frá því í sumar. Smith hefði ekki fært rök fyrir því hvaða þörf væri á þeim gögnum sem hann færi fram á umfram þau sem stofnunin hefði þegar látið honum í té.

Blaðamaðurinn David Roberts sem skrifar um orku- og loftslagsmál fyrir vefmiðilinn Vox, segir í grein á vefsíðunni að vísindanefnd fulltrúadeildarinnar sé enn verri en Benghazi-nefndin sem fulltrúar repúblikana hafa viðurkennt leynt og ljóst að hafi haft það meginmarkmið að koma höggi á Hillary Clinton, líklegasta forsetaframbjóðanda demókrata.

Í tilfelli vísindanefndarinnar sé ætlunin að ógna helstu vísindamönnum og stofnunum landsins án þess að neinar ásakanir um nokkuð misjafnt af þeirra hálfu liggi fyrir. Með því eigi að senda þau skilaboð að þess sé ekki þess virði að rannsaka mál sem stjórnmálamenn deili á.

Samtök áhyggjufullra vísindamanna (e. Union of Concerned Scientists) kalla vinnubrögð nefndarinnar áreiti og líkja þeim við nornaveiðar. NOAA ætti að gera allt sem í valdi stofnunarinnar stendur til að komast hjá því að láta undan stefnu þingnefndarinnar.

Reyna að drepa umræðunni á dreif fyrir loftslagsfund

Michael Mann, einn þekktasti loftslagsvísindamaður heims sem hefur sjálfur þurft að verjast tilraunum samtaka sem tengjast olíuiðnaðinum til að komast yfir einkaskjöl hans, segir að vísindanefndin hafi augljóslega engan áhuga á að komast að vísindalegum staðreyndum endi liggi þær allar fyrir.

„Það sem mig grunar er að þeir séu að reyna að gera það sem þeir hafa gert um árabil, reyna að komast yfir persónulega tölvupósta, leita í gegnum þá til að finna einstök orð eða setningar sem þeir geta tekið úr samhengi til að reyna að rangfæra það sem vísindamennirnir segja eða reyna að að koma þeim í vandræði,“ sagði Mann í viðtali við RT.

Á ýmsan hátt líkist þessar tilraunir vísindanefndarinnar því þegar tölvuþrjótar brutust inn í tölvukerfi loftslagsrannsóknarmiðstöðvar Háskólans í Austur-Anglíu á Englandi árið 2009 og völdum setningum úr tölvupóstsamskiptum loftslagsvísindamanna var lekið. Þær voru sagðar sýna fram á að loftslagsvísindamenn hagræddu rannsóknum.

Það gerðist í aðdraganda loftslagfundar Sameinuðu þjóðanna árið 2009, að því er Mann segir, til að drepa loftslagsumræðunni á dreif. Fjöldi rannsókna hafi síðan komist að þeirri niðurstöðu að vísindamennirnir hafi ekkert af sér gert. Í millitíðinni hafi afneiturum loftslagsvísinda hins vegar tekist að „ræna“ Kaupmannahafnarfundinum, sem fór út um þúfur.

„Þeir eru vafalaust að reyna að leika sama leik núna þegar við nálgumst næsta stóra loftslagsfundinn síðar á þessu ári í París. Það má búast við fleiri svona truflunum og tilraunum til að rugla almenning, búa til deilur til að hægt sé að draga athygli almennings og stefnumótenda frá málinu sem steðjar að sem er að gera eitthvað í loftslagsbreytingum,“ segir Mann.

Grein Washington Post um deilur vísindanefndarinnar og NOAA

Grein David Roberts á Vox

Gögn rannsóknarinnar á vef NOAA

Ekki hefur hægt á hlýnun

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert