Finna hluti með nýjum búnaði

Franska frumkvöðlafyrirtækið Wistiki kynnti í gærkvöldi búnað sem er ætlaður til að finna hluti sem þú hefur týnt. Útlitshönnuður tækisins er Philippe Starck. 

Búnaðurinn sem Wistiki, sem var stofnað í fyrra, hefur hannað nýtir sér Bluetooth-tæknina með smáforriti sem virkar bæði á Apple og Android snjallsíma. 

Bruno Lussato, einn þriggja bræðra sem eiga Wistiki, kynnti nýja búnaðinn fyrir blaðamönnum í San Francisco í gær. Meðal annars er lítið kort sem er hægt að festa í peningaveski eða í ól gæludýrs og ef viðkomandi hlutur er í innan við 100 metra radíus frá snjalltækinu þá skynjar það hlutinn. 

Starck, sem er einn þekktasti hönnuður samtímans, ætlaði að vera viðstaddur kynninguna í gær en því miður komst hann ekki þar sem hann var fastur í Suður-Ameríku. 

Hann hefði sennilega verið betur settur ef hann hefði verið með búnaðinn í farteskinu því hann týndi vegabréfinu sínu og situr því fastur í Ekvador, að sögn Lussato.

Stefnt er að því að nýja tækið verði komið á markað í mars á næsta ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert