Einkenni stundum mikil, stundum lítil

Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir.
Arnar Hauksson kvensjúkdómalæknir. mbl.is//Hari

Tímabilið frá fjörutíu og fimm ára til fimmtíu og fimm ára er oftast nefnt breytingaaldur, tengt tíðahvörfum kvenna. Á þessu tímabili upplifa margar konur ýmis óþægindi tengd því að hormónaframleiðsla líkamans dregst saman. Helstu einkennin sem konur upplifa geta verið truflanir á blæðingum, hitakóf, kvíði, líkamleg vanlíðan, óöryggi, svefnleysi og beinþynning.

Til að bregðast við þessu hefur í fjölda ára aðallega verið gripið til þess að gefa konum samsett kvenhormón. En slík hormón geta haft neikvæð áhrif á hjarta- og æðakerfi, þar með talið aukna blóðtappaáhættu og auknar líkur á brjóstakrabbameini.

Þegar Arnar Hauksson fæðingar- og kvensjúkdómalæknir er spurður að því hversu mikil áhættan sé þegar konur taka inn hormón segir hann að hún sé ekki rosalega mikil.

„En hún er þó marktækt aukin, og þar fer mest eftir heilsu, lifnaði og líkamlegu ástandi kvennanna sem taka hormón, hvort sem er í töflum, plástrum eða kremi. Þau virka á sömu viðtæki og hafa sömu áhættuþætti. Aðaláhættuþættirnir koma fram ef konur reykja, eru of þungar eða hafa undirliggjandi hjarta- og/eða æðasjúkdóma.“

Til langs tíma var ekki val á öðru en slíku kvenhormóni til að meðhöndla konur með mikil einkenni á breytingaskeiðinu, en eftir að upplýsingar komu fram árið 2001 um áhættuna sem fylgir því að taka slík hormón hefur orðið þrýstingur frá samfélaginu um að finna aðrar leiðir sem ekki innihalda hormón.

Aragrúi náttúrulyfja hefur því komið á markaðinn en af þeim hafa fá verið prófuð vísindalega með tilliti til raunverulegrar virkni og áhættuþátta. Eitt af þessum náttúruefnum sem hafa verið prufuð er Femarelle, en í því er TOFU-peparat (virka efnið DT56a). Það hefur sýnt sig í byrjunarrannsóknum að þetta efni virkar á sérhæfð viðtæki í líkamanum, með sama hætti og östrógen virkar á sín viðtæki. Og getur fyrir vikið haft jákvæð áhrif á mörg þeirra óþægilegu einkenna sem fylgja breytingaaldrinum.

Reynst betra en gervilyf

Arnar fór í haust á ráðstefnu evrópskra kvensjúkdómalækna í Barcelona en þar hélt dr. Andrea R. Genazzani, fyrrverandi formaður evrópskra hormónasérfræðinga í kvensjúkdómum, erindi um fyrrnefnt virkt efni DT56a.

„Andrea Genazzani horfir mjög jákvæðum augum á Femarelle sem valkost fyrir konur sem fyrsta val á breytingaskeiði, fyrir þær sem vilja síður taka hormón, sérstaklega í upphafi breytingaaldurs, þótt þær þurfi kannski seinna að taka öflugri lyf, hormón. Í erindi Andrea kom fram að gerðar hafa verið fjölmargar rannsóknir á Femarelle bæði í Evrópu og Bandaríkjunum undanfarin 14 ár og bandaríska lyfjaeftirlitið hefur samþykkt að TOFU sé skaðlaust og það hafi engin neikvæð áhrif, hvorki á brjóstakrabbamein, blóðtappa né á blæðingar eða aðra áhættuþætti sem hormón geta haft neikvæð áhrif á. Það virðist því ekki vera áhætta fyrir konur að prófa að taka Femarelle, nema þær hafi ofnæmi fyrir einhverju innihaldsefni þess.“

Arnar segir að það hafi komið fram á ráðstefnunni að þótt þessar rannsóknir séu flestar litlar þá sýni þær að virka efnið DT56a hefur jákvæð áhrif á beinþéttni.

„Það hefur líka haft jákvæð áhrif á að draga úr vanlíðan og svefntruflunum á breytingaaldri. Í nokkrum rannsóknum, að vísu mjög litlum, hefur efnið haft jákvæð áhrif á hitakóf, þegar þau eru af vægri gerð, en efnið virkar síður á öflug hitakóf. Einnig hefur sýnt sig að það hefur jákvæð áhrif á slímhimnu í leggöngum, með svipuðum hætti og staðbundin hormón í leggöngum geta haft. Í öllum þessum rannsóknum sem birtar hafa verið hefur Femarelle reynst betra en gervilyf,“ segir Arnar og bætir við að fyrir konur með áhættuþætti skipti miklu máli að þær geti fengið einhverja bót með öðru en hormónainntöku.

„Breytingaaldurseinkenni geta dregið verulega úr lífsgæðum og þá skiptir máli að eitthvað sé í boði fyrir konur sem þær geta tekið án þess að það skapi þeim áhættu.“

Annað kom í ljós þegar konurnar máttu kvarta

En konur finna mismikið fyrir þessum einkennum breytingaskeiðsins; sumar fá heiftarleg einkenni en aðrar finna varla fyrir þeim. Þegar Arnar er spurður hverju þetta sæti segir hann að það sé ekki enn þekkt hvað valdi þessum mun.

„En það verið að rannsaka þetta og munurinn virðist liggja í ættum og jafnvel þjóðum. Það var haldið að konur í Suður-Ameríku og Asíu væru lausar við einkenni breytingaskeiðsins en í ljós kom að konur í þessum löndum urðu ekki eins gamlar og þær á Vesturlöndum, sem skekkti myndina.

Í Japan og Indlandi voru þær konur sem nutu virðingar, þær elstu í ættunum, ekkert að kvarta hér áður fyrr. En þegar konur áttuðu sig á að þær mættu kvarta fóru að koma fram sömu tölur og í Evrópu og líka þegar ævi kvenna á þessum svæðum lengdist. Rétt undir tuttugu prósentum kvenna í heiminum finna nánast aldrei fyrir breytingaeinkennum, en þær geta samt verið með beinþynningu.“

Hreinsa þakrennur o.fl
Hreinsa þakrennur, fyrir veturinn og tek að mér ýmis smærri verkefni. Uppl. í sí...
Húsaviðgerðir - husco.is
https://www.husco.is/...
SUMARHÚS- GESTAHÚS- BREYTINGAR
Sumarhús - Gestahús - Breytingar ? Framleiðum stórglæsileg sumarhús í ýmsum stær...
Húsaviðgerðir
https://www.husco.is/...