Lýsa upp herstöðina með æfingaappi

Kortið sýnir ferðir hermanna innan Bagram herstöðvar Bandaríkjahers í Afganistan.
Kortið sýnir ferðir hermanna innan Bagram herstöðvar Bandaríkjahers í Afganistan. Skjáskot/Strava

Hermenn og aðrir starfsmenn herstöðva víða um, sem nýtt hafa sér æfingaappið Strava, hafa óvart deilt upplýsingum um herstöðvarnar sem þeir dvelja í. Segir BBC þetta m.a. eiga við um hermenn sem dvelja í herstöðvum í Sýrlandi og Afganistan.

Appið birtir svo nefnt hitakort sem sýnir leiðina sem notandinn fór á æfingu sinni, t.a.m. hlaup eða hjólaferð innan herstöðvarinnar eða í nágrenni hennar. En hermenn líkt og margir aðrir notendur virðast gjarnir á að deila æfingaafrekum sínum á samfélagsmiðlum.

Segir BBC hitakortið sýna skipan herstöðvanna, m.a. í Sýrland og Afganistan, þar sem innri uppbygging hersvöðvanna á helst að vera hernaðarleyndarmál.

Er Bandaríkjaher nú að rannsaka hitakortin að því er Washington Post hefur eftir talsmanni hersins, sem og mögulegum afleiðingum birtinganna.

Það var ástralskur háskólanemi, Nathan Ruser, sem fyrst áttaði sig á málinu er hann var að skoða blogg um kortagerð. „Ég leit á þetta og hugsaði „fjandinn, þetta ætti ekki að vera hérna –þetta er ekki gott,“ sagði Ruser í samtali við BBC.

Þó að staðsetning herstöðva sé almennt vel þekkt og þær vel sýnilegar til að mynda á gervitunglamyndum Google Earth, þá veitir hitakort Strava auknar upplýsingar, m.a. með því að sýna virkni á svæðinu, sem m.a. birtist með auknu birtumagni, sem og ferðir innan herstöðvanna. Þá hafa einnig verið skráðar upplýsingar um ferðir utan herstöðva, sem kunna að sýna vinsælar æfingaleiðir, eða eftirlitsferðir.

Ruser segist hafa fengið áfall er hann áttaði sig á hversu miklar upplýsingar var þarna að finna. „Það er hægt að sýna fram á ákveðna rútínu,“ segir hann.

Appið er mun vinsælla hjá notendum á Vesturlöndum en annars staðar, sem felur í sér að sögn Rusers að erlendar herstöðvar skera sig virkilega úr í Miðausturlöndum.

Forsvarsmenn Strava segjast ekki birta upplýsingar sem notandinn merkir sem prívat. Birting herstöðvanna á hitakortunum gefur því til kynna að mikill fjöldi starfsfólks herstöðvanna víða um heim deili upplýsingum um æfingar sínar á netinu.

Ruser, sem er nemi í alþjóðaöryggisfræðum við Australian National University, sagði að hver sem er hefði getað rekið augun í upplýsingarnar.

„Ég taldi að besta leiðin til að taka á því væri að greina frá veikleikanum svo hægt væri að laga þetta,“ sagði hann. „Einhver hefði tekið eftir þessu á einhverjum tímapunkti. Það var bara tilviljun að það var ég.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert