Leyfir hópmálsókn gegn Facebook

Facebook hefur þurft að verjast á mörgum vígstöðvum síðustu vikur.
Facebook hefur þurft að verjast á mörgum vígstöðvum síðustu vikur. AFP

Alríkisdómari í Kaliforníu heimilaði í gær hópmálsókn gegn Facebook vegna ásakana um að á samfélagsmiðlinum séu persónuverndarlög brotin þegar andlit á ljósmyndum eru greind án sértaks samþykkis notandans.

Facebook hefur síðustu vikur verið harðlega gagnrýnd fyrir að gögn um 87 milljónir notenda hennar komust í hendur þriðja aðila og var svo misbeitt í kosningabaráttunni í Bandaríkjunum árið 2016.

Andlitsgreiningartólið á Facebook var sett í loftið árið 2010. Tólið leggur til hverjir eru á hverri mynd fyrir sig sem birt er á miðlum en þetta segja aðstandendur hópmálsóknarinnar að brjóti í bága við persónuverndarlög í Illinois-ríki.

Dómarinn komst að þeirri niðurstöðu að Nimesh Patel, Adam Pezen og Carlo Licata, sem allir eru frá Illinois, séu hagsmunaaðilar og því geti þeir farið í hópmálsókn gegn Facebook. 

Talsmaður Facebook segir fyrirtækið nú vera að meta niðurstöðu dómarans. Hann bætti við að tekið yrði til harðra varna í málinu.

mbl.is