Stálu einkaskilaboðum af Facebook

AFP

Tölvuþrjótar virðast hafa komist yfir og birt einkaskilaboð að minnsta kosti 81 þúsund Facebook-notenda. Þetta kemur fram á fréttavef breska ríkisútvarpsins BBC. Þrjótarnir greindu BBC frá því að þeir hefðu upplýsingar um 120 milljónir notenda sem þeir hefðu í hyggju að selja en efasemdir eru um að sú tala sé rétt.

Facebook hefur lýst því yfir að öryggiskerfi fyrirtækisins hefðu ekki brugðist og að upplýsingarnar hefðu að öllum líkindum verið fengnar með því að nota viðbætur við vafra í þeim tilgangi. Fyrirtækið hafi gripið til aðgerða til þess að koma í veg fyrir að hægt væri að nálgast upplýsingar um einkaskilaboð fleiri notenda.

Haft er eftir Guy Rosen hjá Facebook að haft hafi verið samband við framleiðendur vafra til þess að tryggja að ekki verði hægt að hala niður viðbótum sem hafa að geyma forrit til þess að nálgast slíkar upplýsingar. Einnig hafi verið haft samband við lögggæslustofnanir og unnið með þeim að því að fjarlægja vefsíðu sem birt hefur upplýsingarnar.

Samkvæmt frétt BBC eru margir af umræddum notendum Facebook búsettir í Rússlandi og Úkraínu en einnig einhverjir í Bandaríkjunum, Bretlandi, Brasilíu og víðar. Þrjótarnir hafa boðist til að selja aðgang að upplýsingunum gegn greiðslu upp á 10 evrusent fyrir hvern notanda. Auglýsing þess efnis, sem var uppi um tíma, hefur hins vegar verið fjarlægð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert