Mengunin hverfur með „Soda Stream“

Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Orkuveitunni, og Edda Sif Pind …
Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, jarðfræðingur hjá Orkuveitunni, og Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnisstjóri CarbFix. Þær hafa ásamt fleirum leitt vinnu við að binda útblástur í berg. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er í sjálfu sér einföld aðferð,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, verkefnastjóri hjá CarbFix teymi á Hellisheiði. Undanfarin tólf ár hefur aðferð verið þróuð sem hefur skilað sér í því að nú er farið að binda um 10 þúsund tonn af koltvíoxíði árlega af losun Hellisheiðarvirkjunar og meirihlutann af brennisteinsvetninu sem verksmiðjan losaði.

Frá því fyrir tólf árum hafa vís­inda­menn í sam­starfi við iðnaðar- og tækni­fólk Orku­veitu Reykja­vík­ur og dótt­ur­fyr­ir­tækj­anna Orku nátt­úr­unn­ar og Veitna unnið að þróun og próf­un þeirr­ar hug­mynd­ar að hægt sé að taka kolt­víoxíð sem kem­ur upp með jarðhita­vökv­an­um við nýt­ingu hans, blanda það vatni og dæla því aft­ur niður í jörðina þaðan sem það kom. Þar bind­ist það var­an­lega á formi steinda.

Gasblandan er sett í sturtu

Edda segir að bæði koltvíoxíð (CO2) og brennisteinsvetni (H2S) leysist upp í vatni. „Gastegundirnar eru hreinsaðar frá öðrum jarðhitagastegundum með því að setja gasblönduna í sturtu þegar hún kemur frá virkjuninni. Við tökum vökvann með uppleysta gasinu og dælum ofan í berglög,“ segir Edda.

Við þetta eigi sér stað náttúruleg ferli, sem gerist í basalti, sem verða til þessa að uppleystu gösin verða að grjóti. „Innan tveggja ára eru þau orðin að grjóti og við þurfum ekki að hugsa meira um þau,“ segir Edda og tekur undir að til að útskýra málið á afar einfaldan hátt megi segja að verið sé að breyta megnandi útblæstri í grjót.

Frá Hellisheiðarvirkjun.
Frá Hellisheiðarvirkjun. mbl.is/Golli

„Við erum í rauninni einungis að hagnýta þessa náttúrulegu ferla sem eru hluti af hringrásum þessara efna hvort eð er í jörðinni og við höfum raskað. Sérstaklega höfum við raskað hringrás kolefnis með miklum bruna jarðefnaeldsneytis undanfarna áratugi,“ segir Edda.

Vel hægt að nýta aðferðina víðar

Rithöfundurinn og umhverfissinninn Andri Snær Magnason benti á það í grein í Kjarnanum í vikunni að álverin á Íslandi gætu nýtt sér tæknina sem notuð er í Hellisheiðarvirkjun til að gera losun þeirra að engu. Edda segir að hægt sé að beita þeirra aðferð óháð hvers konar orkuframleiðsla eða iðnaður er til staðar.

„Það þarf þrennt að vera til staðar; útblástur á koltvíoxíði sem vilji er til að minnka, aðgangur að vatni og basalt í nágrenninu,“ segir Edda. Hún bendir á að nánast allt Ísland sé gert úr basalti.

„Það er vel hægt að nýta aðferðina, hvort sem talað er um álver eða einhverja aðra iðju hér á landi. Ef til vill þyrfti að breyta henni smávægilega út af því að við erum búin að besta hana fyrir akkúrat ferlið á Hellisheiði, þar sem við hreinsum saman koltvíoxíð og brennisteinsvetnið. Það væru minniháttar útfærsluatriði sem þarf að huga að. Í stórum dráttum má herma eftir því sem við gerum.

Hún segir að teyminu í Hellisheiðarvirkjun hafi tekist að ná kostnaði verulega niður með því að vera úrræðagóð og beita einfaldri aðferð til gashreinsunar; sem líkja megi við Soda Stream.

mbl.is

Bloggað um fréttina