Reyndu að vara við Facetime-gallanum

AFP

Mæðgin frá Arizona-ríki í Bandaríkjunum reyndu að vara Apple við galla í FaceTime-hug­búnaðinum sem veld­ur því að viðkom­andi heyr­ir allt þrátt fyr­ir að sá sem hringt er í hafi ekki svarað sím­tal­inu.

Greint var frá gallanum í gær en Michele Thompson segir að hún og 14 ára sonur hennar hafi gert nokkrar árangurslausar tilraunir til að vara fyrirtækið við. Ábendingum þeirra hafi ekki verið svarað.

„Ég reyndi allt sem ég gat til að ná sambandi við einhvern hjá Apple,“ sagði Thompson við Wall Street Journal.

Tæknifyr­ir­tækið hef­ur stöðvað tíma­bundið mögu­leik­ann á hóp­sam­töl­um á meðan hug­búnaður­inn verður upp­færður. Þar verður síðar í þess­ari viku.

Thompson segist fyrst hafa reynt að ná sambandi við Apple 20. janúar en 25. janúar birti hún myndskeið á Youtube þar sem hún og sonur hennar útskýra gallann.

„Ég er með bréf, tölvupósta, tíst og skilaboð sem ég sendi Apple síðustu tíu daga þar sem ég greini frá gallanum. Unglingurinn minn uppgötvaði þetta! Ég heyrði ekkert frá þeim,“ skrifaði Thompson á Twitter í gær.

Apple heitir verðlaunum fyrir þá sem finna galla í vörum fyrirtækisins. Thompson sagðist hafa vonast eftir því að sonur hennar myndi njóta þess. „Það væri frábært ef sonur minn fengi viðurkenningu fyrir að greina frá þessu,“ sagði Thompson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert