TikTok braut gegn persónuvernd

AFP

Neytendastofa Bandaríkjanna hefur sektað aðstandendur smáforritsins TikTok fyrir að hafa brotið gegn friðhelgi einkalífs og er sektin sú hæsta sem hefur verið lögð á í Bandaríkjunum þegar kemur að upplýsingavernd barna.

Fyrirtækið hefur samþykkt að greiða 5,7 milljónir Bandaríkjadala, sem svarar til 682 milljóna króna, í sekt og breyta forritinu varðandi uppsetningu þess hjá börnum yngri en 13 ára. 

Neytendastofan, Federal Trade Commission (FTC), segir að smáforritið Musical.ly, sem síðar var yfirtekið og sameinað TikTok, hafi verið mjög mikið notað af börnum yngri en 13 ára. Þar á meðal á Íslandi. Nú hefur TikTok verið gert að eyða þeim upplýsingum sem þar hafði verið safnað saman. 

Jafnframt verður öllum notendum TikTok í Bandaríkjunum gert að staðfesta aldur sinn þegar þeir opna forritið. Hins vegar, líkt og svo margir samfélagsmiðlar, byggir staðfestingin á því að viðkomandi segi hvenær hann er fæddur og ljúgi jafnvel til um fæðingarár til þess að komast hjá því að vera stöðvaður. 

TikTok ætlar ekki að krefja notendur í öðrum löndum svara varðandi aldur. Talið er að notendur TikTok séu um einn milljarður talsins enda var engu smáforriti jafnoft hlaðið niður í fyrra og TikTok.

Líkt og FTC bendir á þá eru notendurnir margir hverjir yngri en 13 ára en hátt hlutfall notenda Musical.ly voru yngri en 13 ára. 

Kínverskt móðurfélag TikTok, ByteDance, yfirtók Musical.ly árið 2017 og sameinaði það TikTok og aftengdi upprunalega smáforritið Mucical.ly. Með forritinu er hægt að búa til stutt myndskeið, setja inn tónlist og deila með öðrum. 

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert