Læsi til framtíðar

Lestur er lykill að námi.
Lestur er lykill að námi.

Segja má að lestur sé lykilinn að öllum öðrum lyklum hvað varðar allt nám, þekkingarleit og þekkingarþróun. Börn, unglingar og fullorðnir geta einnig öðlast gleði og átt góðar stundir við bóklestur. Við sem þjóð eigum því að sjá metnað okkar í því að allir sem eiga þess kost ættu að læra að lesa og hafa aðgang að skemmtilegum og fræðandi bókum til að lesa á bókasöfnum. Við megum ekki gleyma því að lestur er færni sem þarfnast mikillar þjálfunar.

Rannsóknir sýna að sérhæfð þjálfun byggir upp net af taugafrumum, eða nokkurs konar „snaga“. Það má segja að færni megi bæði skoða sem „magn“ og „gæði“. Það er að segja magn tengist þeirri færni og þekkingu sem við höfum – það má líta á þetta eins og marga litla snaga, eins konar yfirborðsþekkingu. Dæmi væri einstaklingur sem vissi að Halldór Kiljan Laxness skrifaði fjölda bóka eins og Sjálfstætt fólk og Íslandsklukkuna, en hefði ekki lesið neina af þeim. Gæði tengist því að sumir snagarnir eru orðnir stórir og öflugir. Sem dæmi getur annar einstaklingur haft mikla og djúpa kunnáttu á verkum Laxness. Hann hefur lesið margar af hans bókum og veit hvað þær fjalla um. Hann hefur byggt upp snaga sem tengjast Kiljan Laxness. Sem foreldrar, kennarar og aðrir sem vinna með börnum þá verðum við að ákveða hvaða snaga við viljum gera stóra og öfluga – sem sagt vinna með í gegnum námsferilinn frá yfirborðsþekkingu til djúprar þekkingar. Sú þekking sem börn og unglingar öðlast í gagnfræðaskóla er mikilvæg. Rannsóknir fræðimanna sýna fram á mikilvægi einkunna í lok grunnskóla fyrir árangur í framhaldsskóla. Í Noregi er gefið hæst 6. Rannsókn sýndi að þeir sem fá 2 eða 2,5 hafa 20% möguleika á að klára framhaldsskóla. Þeir sem fá hins vegar 4 eða 4,5 hafa 90% möguleika á að klára framhaldskóla.

Staða okkar

Hvernig er staða íslenskra 15 ára unglinga? Í PISA, stórri alþjóðlegri könnun, kemur í ljós að við erum nr. 35 af 69 löndum. 28% drengja geta ekki lesið sér til gagns, eru á 1. stigi og 28% á 2. stigi. Sem sagt, samtals 56% á fyrstu tveimur stigum lesskilnings. 15% stúlkna eru á 1. stigi 1 og 25% eru á 2. stigi. Þetta er algjörlega óásættanleg staða hjá bókaþjóðinni sem hefur getið af sér mikilvægar bókmenntir til heimsins. Þessu verða stjórnvöld að taka á með foreldrum og kennurum. Af hinum löndunum á Norðurlöndum skora Finnar best og eru nr. 4 af 69 löndum í PISA. Finnskar stúlkur eru nr. 1 og finnskir drengir eru í 7. sæti. Á Íslandi falla á sama tíma fjórir af hverjum tíu út úr framhaldsskóla. Mjög sennilega tengist það slæmum árangri í grunnskóla og mögulega erfiðleikum í lestri hjá mörgum. Þetta er ekki gott fyrir samkeppnishæfi okkar Íslendinga.

Hermundur Sigmundsson
Hermundur Sigmundsson Kristinn Magnússon

PISA sýnir líka fram á kynjamismun í öllum 69 löndunum sem taka þátt, stúlkur eru almennt betri en drengir í lestri. Ísland er eitt af þeim löndum þar sem munurinn er mestur. Í þessu samhengi er vert að skoða niðurstöður nokkurra rannsókna. Þær sýna m.a. að minna er talað við drengi frá fæðingu, sem tengist umhverfi, drengir babbla minna við 10 mánaða aldur en stúlkur sem væntanlega tengist meira erfðum. Okkar rannsóknir sýna að við 5-6 ára aldur, þegar börn byrja í skólanum, er kynjamismunur í bókstaf-hljóða kunnáttu, sem er mikilvægasti þátturinn fyrir lestrarfærni. Stelpur kunna mun fleiri bókstafi og hljóð þeirra þegar þær byrja í skóla en strákar. Þær sýna líka að bilið milli stúlkna og drengja helst í gegnum fyrsta árið í skólanum.

Í byrjun skólans kunna 11% af börnunum að lesa, þar af eru 70% stúlkur, í lok skólaársins kunna 27% ekki að lesa þar af 70% drengir (norsk rannsókn). Þannig má segja að kynjamismunurinn sem við sjáum klárlega í öllum löndum í PISA í lestri/lesskilningi hjá 15 ára unglingum byrji þegar börn hefja skólagöngu og kannski fyrr. En það má líka bæta því við að vitum einnig að drengir hafa minni áhuga á lestri en stúlkur; þeir lesa minna en stúlkur, fátækt hefur meiri áhrif á árangur drengja og það að búa með einstæðu foreldri hefur meiri áhrif á árangur drengja í skóla.

Ástæður

Það eru að sjálfsögðu margar ástæður fyrir slíkum niðurstöðum. Sú fyrsta getur tengst því að við notum ekki réttar lestrarkennsluaðferðir fyrir byrjendur í öllum grunnskólum landsins. Líklegt er að það komi niður á lestrargetunni. Önnur ástæða getur verið sú að við gefum okkur ekki nægan tíma í þjálfun á lestri. Það að lesa bækur og margar bækur hefur mikið að segja fyrir lesskilning, sem er ábótavant miðað við PISA-niðurstöður. Þannig að hægt er að segja að þjálfun er ónóg til að byggja upp sterka snaga – djúpa þekkingu. Þriðja ástæðan getur verið að við notum ekki nógu góðar lestrarbækur, sem passa áhuga stelpna, stráka og beggja kynja. Hérna eru Norðmenn komnir mun lengra með að þróa og nota flottar bækur fyrir yngstu börnin. Bækurnar eru af ellefu mismunandi erfiðleikastigum og 20 bækur á hverju stigi. Fjórða ástæðan getur tengst því að við notum bókasöfnin of lítið. Það má líka spyrja hvort bókasöfnin séu nógu góð í skólum landsins og bæjarfélögum. Fimmta ástæðan getur tengst því að við náum ekki að kveikja áhugann á lestri sem er gífurlega krefjandi í sterkri samkeppni við snjallsíma, snjallbretti og tölvuleiki. Það mætti líka nefna vöntun á fræðilegri umræðu um mikilvægi lesturs og hvað við erum að fást við í skólanum, aðferðafræði, og lestrarhraðamælingar Menntamálastofnunar. Öflug fræðileg umræða er gífurlega mikilvæg í hverju þjóðfélagi.

Möguleikar

Við verðum að nota viðurkenndar rannsóknir sem útgangspunkt fyrir það sem við gerum í skólanum. Hvað er til ráða?:

1. Læsi. Felur í sér að nota rétta aðferðafræði. Algjört grundvallaratriði er að grunnskólar landsins noti sannreynda og viðurkennda kennsluaðferð fyrir byrjendur – bókstafs-hljóð aðferð. Bókstafs-hljóð kunnátta er einn af hornsteinunum fyrir lestur, samanber fremstu vísindamenn í heiminum á sviði lestrar Stanislas Dehaene, Joel Talcott og Finn Egil Tønnesen. Sem sagt að kenna börnum bókstafina og hljóð þeirra, vinna með að lesa tveggja og þriggja stafa orð og síðan fjögurra og fimm stafa orð og stuttar setningar, allt þangað til læsi er náð. Rannsóknir sýna að þegar barnið kann að meðaltali 17-19 bókstafi nær það að lesa.

2. Skapa áhuga. Gerist með því að finna réttar bækur og viðfangsefni – gefa réttar áskoranir miðað við áhugasvið hvers og eins. Bókasöfnin í skólum og bæjarfélögum eiga að vera gullnáma fyrir börn og unglinga til að finna bækur við hæfi. Það er ein af höfuðástæðum fyrir velgengni finnskra unglinga í PISA.

3. Meiri þjálfun. Það þarf að forgangsraða í skólanum og fá heimilin og forráðamenn með. Í hverjum mánuði ættu börn og unglingar að telja hversu margar bækur þau lásu og geta sagt hvaða þrjár voru skemmtilegastar. Þetta er ráð frá fremsta finnska sérfræðingnum í lestri. Bæði foreldrar og forráðamenn eiga að stuðla að nægri þjálfun sinna barna. Finnum bækur við hæfi sem vekja áhuga þeirra á lestrinum. Við verðum að forgangsraða þannig að unnið sé markvisst og skipulega með grunnfærni í læsi í skólanum. Við ættum ekki að fókusera á leshraða heldur að fá börn til að lesa mikið af bókum. 

Þetta er virkilega brýnt þjóðfélagslegt verkefni – eflum lestur fyrir framtíð okkar barna.

Her­mund­ur Sig­munds­son er pró­fess­or í lífeðlis­legri sál­fræði við Há­skól­ann í Þránd­heimi og Há­skól­ann í Reykja­vík og skrif­ar pistla um vís­indi og sam­fé­lag. Pist­ill­inn birt­ist fyrst í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins 10. mars 2019.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.185 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »