Stjörnum prýdd Apple-kynning

Oprah Winfrey á Apple-kynningunni í gær.
Oprah Winfrey á Apple-kynningunni í gær. AFP

Bandaríski tæknirisinn Apple hélt eina af sínum margfrægu kynningum í gær þar sem kynntar voru margar nýjungar, meðal annars í sjónvarpsveitu fyrirtækisins. Óhætt er að segja að kynningin hafi verið stjörnum prýdd.

Meðal þeirra sem tóku þátt í kynningunni voru stjörnurnar Jennifer Aniston, Steven Spielberg og Oprah Winfrey. Nýtt Apple TV+ var kynnt til sögunnar, en meðal nýjunga er að þar verða þættir aðgengilegir frá öðrum streymisveitum á borð við Hulu og HBO.

Svokallað Apple-kreditkort var einnig kynnt sem nýjung hjá fyrirtækinu, en bæði er hægt að fá það í hendurnar sem eiginlegt kort eða að hafa það í iPhone-snjalltæki. Verður það aðeins nothæft í Bandaríkjunum og inniheldur engan falinn kostnað eða árgjöld, segir fyrirtækið.

Apple fjallaði einnig um nýja fréttaveitu fyrirtækisins, Apple News+, þar sem meira en 300 dagblöð og tímarit verða aðgengileg notendum. Það sem er merkilegt við þann vettvang er að ekki verður fylgst sérstaklega með lestri notenda og þar af leiðandi geta auglýsendur ekki komist í þann gagnagrunn.

Þá var einnig kynntur nýr vettvangur fyrir leiki, Apple Arcade, þar sem yfir 100 leikir verða aðgengilegir til spilunar án þess að krafist sé tengingar við net. Er það svar Apple við Stadia, svipuðum eiginleika fyrir leiki sem Google kynnti fyrir skemmstu.

mbl.is