Ný manntegund sögð fundin

Bein í fingrum og tám Homo luzonensins voru sveigð, sem …
Bein í fingrum og tám Homo luzonensins voru sveigð, sem bendir til þess að klifur hafi verið veigamikill þáttur í lífi tegundarinnar. Ljósmynd/Florent Detroit-safnið í París

Ný og áður óþekkt manntegund hefur bæst við ættartré nútímamannsins, en bein útdauðrar og smávaxinnar manntegundar hafa fundist á Filippseyjum. Manntegundin hefur fengið heitið Homo luzonensins, þar sem beinin fundust á eyjunni Luzon, sem er stærst Filippseyja.

Beinin hafa fundist í helli á norðurhluta eyjunnar, en þar hefur staðið yfir uppgröftur frá árinu 2007. Aldursgreining hefur leitt í ljós að beinin séu á bilinu 50-67.000 ára gömul.

Greint er frá þessu í fjölmiðlum víða um heim í dag, meðal annars á vísindavef breska ríkisútvarpsins. BBC segir frá því að líkamlegt atgervi tegundarinnar hafi verið sambland af frumstæðum forfeðrum okkar nútímamannanna og nýlegri manntegunda.

Tennur sem fundist hafa í hellinum og sagðar eru tilheyra …
Tennur sem fundist hafa í hellinum og sagðar eru tilheyra Homo luzonensis. Ljósmynd/Florent Detroit-safnið í París

Fundurinn gæti þýtt að frumstæðir ættingjar okkar tegundar, Homo sapiens, hafi yfirgefið Afríku og komist alla leiðina til Suðaustur-Asíu, en það hafði áður verið talið ómögulegt. Þessi uppgötvun er einnig sögð gefa til kynna að þróun manntegunda á þessu svæði hafi verið mjög flókin, þar sem þrjár eða fleiri manntegundir hafi verið í Suðaustur-Asíu áður en forfeður okkar mættu þangað.

Ein þeirra tegunda voru hinir svokölluðu hobbitar, Homo floresiensis, sem lifðu á indónesísku eyjunni Flores allt þar til fyrir 50.000 árum síðan.

BBC hefur eftir Chris Stinger, sem er prófessor við náttúrusögusafn Lundúna, að eftir að ummerki um Homo floresiensis fundust og vísindamenn tilkynntu um þá manntegund árið 2004, hefði hann grunað og tjáð sig um að svipuð þróun gæti hafa átt sér stað á fleiri eyjum í Suðaustur-Asíu.

„Þær vangaveltur virðast nú hafa verið staðfestar á eyjunni Luzon, í nærri 3.000 kílómetra fjarlægð.“

mbl.is