Notkun andlitsgreiningartækni bönnuð

Eftirlitsmyndavél.
Eftirlitsmyndavél. mbl.is/Eggert

Stjórnvöld í San Francisco lögðu í dag bann við notkun tækni sem getur aðstoðað lögregluna við að greina andlit fólks.

Átta úr borgarstjórn greiddu atkvæði með banninu en einn var á móti því. Tveir voru fjarverandi, að því er New York Times greindi frá. 

Önnur atkvæðagreiðsla verður haldin í næstu viku vegna málsins en litið er á hana eingöngu sem formsatriði.

Lögreglan víða um Bandaríkin er byrjuð að nota tækni sem þessa til að leita glæpamanna. Hún var meðal annars notuð til að bera kennsl á byssumann sem drap fimm starfsmenn dagblaðs í Annapolis í fyrra.

Mannréttindasamtök hafa engu að síður lýst yfir áhyggjum sínum af þróuninni og er San Francisco núna fyrsta stórborgin í Bandaríkjunum sem bannar notkun þessa búnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert