Sá vinsælasti búinn að fá nóg

PewDiePie.
PewDiePie. AFP

Sænska samfélagsmiðlastjarnan Felix „PewDiePie“ Kjellberg ætlar að taka hlé á samfélagsmiðlum á næsta ári. Hann segist vera úrvinda og hann viti ekki á þessari stundu hversu langt leyfið verður en hann muni láta fylgjendur sína vita þegar þar að kemur.

Þetta kemur fram í nýjasta myndskeiði hans á YouTube en alls er hann með 102 milljónir fylgjenda þar og skipar þar fyrsta sætið.

Felix er þrítugur að aldri og er frá Gautaborg. Myndskeið hans þar sem hann spilar tölvuleiki hafa notið gríðarlegra vinsælda og hefur verið sú stjarna á YouTube sem er með flesta fylgjendur frá árinu 2013. Til að mynda hafa yfir tíu milljónir fylgst með honum spila Minecraft á YouTube.

Tímaritið Forbes mat auðævi hans á 15 milljónir Bandaríkjadala í fyrra, sem svarar til rúmlega 1,8 milljarða króna.  

Kjellberg býr í Brighton í Bretlandi og kvæntist unnustu sinni Marzia Bisognin fyrr á árinu að því er segir í frétt norska ríkisútvarpsins. 

Árið 2017 var ekki eins gott ár fyrir Kjellberg og 2019 því það ár missti hann samning við Disney eftir að hafa verið sakaður um gyðingahatur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert