Alþjóðlegur samhverfudagur, 02.02. 2020

AFP

Aðdáendur fallegra talna hafa ástæðu til að gleðjast í dag, 2. febrúar 2020. Dagsetningin í dag er nefnilega samhverf (e. palindrome), þ.e. hún er lesin eins aftur á bak og áfram. Slík dagsetning er að vísu ekki svo fátíð. Næsta slíka dagsetning verður að ári, 12.02. 2021.

Það sem gerir daginn í dag sérstakan er hins vegar sú staðreynd að samhverfan gildir einnig í þeim ríkjum sem rita dagsetningu á öðru formi en dagur-mánuður-ár, sem okkur Íslendingum er tamt. Þannig er samhverfan einnig til staðar í Norður-Ameríku (02-02-2020) og Svíþóð, Kína og fleiri ríkjum (2020-02-02). Því má segja að um alþjóðlegan samhverfudag sé að ræða.

Síðasti slíki dagur var 11. nóvember árið 1111 (11.11.1111), sem var að vísu áður en  arabíska talnakerfið og júlíanska tímatalið (sem síðar vék fyrir því gregoríanska) náðu útbreiðslu. Má því með sanni segja að dagurinn í dag sé fyrsti alþjóðlegi samhverfudagurinn. Ekki skemmir fyrir að dagurinn er einnig afmælisdagur mbl.is, en miðillinn fór í loftið fyrstur íslenskra fjölmiðla á þessum degi fyrir 22 árum (22 verandi samhverfa, sömuleiðis).

Fréttir skrifaðar beint á Netið allan daginn

Forsíða mbl.is að morgni 2. febrúar 1998.
Forsíða mbl.is að morgni 2. febrúar 1998. Skjáskot/mbl.is

Greint var frá á mbl.is fyrr í vikunni að mikill fjöldi brúðkaupa væri fyrirhugaður í kirkjum og lífsskoðunarfélögum nú í febrúar enda nokkrar smekklegar dagsetningar framundan,  20.02. 2020 og 22.02. 2020 að ógleymdum hlaupársdegi.

AFP
mbl.is