Rússar óska SpaceX til hamingju

Falcon 9 eldflaug SpaceX sést hér rjúka til himins í …
Falcon 9 eldflaug SpaceX sést hér rjúka til himins í gærkvöldi frá Flórída. AFP

Geimferðastofnun Rússlands hefur óskað bandaríska fyrirtækinu SpaceX til hamingju með að hafa náð að skjóta tveimur bandarískum geimförum út í geim í gær. Undanfarinn áratug hafa Rússar aðstoðað Bandaríkin við að koma geimförum um borð í Alþjóðlegu geimstöðina (ISS). 

Geimskotið í gær markaði tímamót því þetta var í fyrsta sinn í 9 ár sem bandarískum geimförum er skotið á loft frá Kennedy-geimmiðstöðinni á Flórída, og jafnframt í fyrsta sinn sem einkafyrirtæki sér um verkið. 

AFP

„Ég vil nýta þetta tækifæri til að hrósa bandarískum kollegum okkar,“ sagði Sergei Krikalev, framkvæmdastjóri rússnesku geimferðastofnunarinnar Roscosmos, í yfirlýsingu sem birt var á Twitter. 

Hann sagði að geimskotið í gær muni bjóða upp á aukin tækifæri sem munu nýtast til góðs á alþjóðavísu. 

Eftir að bandarísk yfirvöld lögðu geimferjum sínum árið 2011 hafa Soyuz-geimflaugar Rússa alfarið séð um að koma mönnum út í Alþjóðlegu geimstöðina, en flaugunum hefur verið skotið frá Baikonur í Kasakstan. 

Þrátt fyrir að mikil spenna hafi ríkt í samskiptum Rússa og vestrænna ríkja á undanförnum árum hefur geimstöðin verið til marks um þau alþjóðlegu samstarfsverkefni sem hafa haldið velli. 

mbl.is